Davies fer líklega til Real Madrid - Liverpool ræðir við Díaz - Varnarmaður Arsenal til Ítalíu?
   sun 22. september 2024 16:00
Brynjar Ingi Erluson
Lengjudeildin: Keflvíkingar í úrslit eftir svakalega spennu
Lengjudeildin
Keflavík spilar til úrslita um sæti í Bestu deildinni
Keflavík spilar til úrslita um sæti í Bestu deildinni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keflavík 2 - 3 ÍR (6-4, samanlagt)
0-1 Guðjón Máni Magnússon ('14 )
0-2 Guðjón Máni Magnússon ('16 )
0-3 Bragi Karl Bjarkason ('35 )
1-3 Kári Sigfússon ('45 )
2-3 Sami Kamel ('69 )
Lestu um leikinn

Keflavík er komið áfram í úrslitaleik umspilsins um sæti í Bestu deild karla eftir að hafa unnið einvígið gegn ÍR í undanúrslitum, 6-4, í dag.

Keflvíkingar unnu fyrri leikinn á ÍR-velli með fjórum mörkum gegn einu og átti þessi leikur að vera formsatriði fyrir heimamenn, en ÍR-ingar mættu baráttuglaðir inn í leikinn.

Guðjón Máni Magnússon skoraði tvö mörk á tveimur mínútum fyrir ÍR.

Róbert Elís Hlynsson átti skot á 14. mínútu sem fór í bakið á Guðjóni og í netið. Lítið sem Ásgeir Orri Magnússon, markvörður Keflvíkinga, gat gert í þessu markið.

ÍR-ingar hömruðu járnið meðan það var heitt. Guðjón tvöfaldaði forystuna á 16. mínútu. Fyrirgjöfin kom frá hægri og lúrði hann á fjær og skoraði annað markið.

Rúnar Ingi Eysteinsson var nálægt því að minnka muninn og ná ÍR-ingum á jörðina stuttu síðar en skalli hans fór í slá.

Endurkoman var fullkomnuð hjá ÍR á 35. mínútu. Keflvíkingar fengu hornspyrnu sem var hreinsuð á Braga Karl Bjarkason, sem keyrði upp allan völlinn, tók eina hreyfingu til vinstri og setti boltann á milli fóta hjá Ásgeiri og staðan í einvíginu jöfn.

Heimamenn skoruðu afar dýrmætt mark undir lok hálfleiksins er Kári SIgfússon stangaði fyrirgjöf Ásgeir Helga Orrasonar í netið og kom Keflavík yfir í einvíginu.

Þetta gaf Keflavík mikinn kraft fyrir síðari hálfleikinn. Þeir sköpuðu sér mörg góð færi og þegar tuttugu mínútur voru eftir skoraði Sami Kamel mark sem gulltryggði Keflavík áfram í úrslitaleikinn, en hann kom á fleygiferð, fékk sendinguna frá Kára og kláraði snyrtilega.

Færin voru á báða bóga eftir annað mark Keflvíkinga en mörkin urðu ekki fleiri. Keflavík fer í úrslitaleik umspilsins og mætir þar annað hvort Aftureldingu eða Fjölni, en ÍR er úr leik.

Hetjuleg barátta hjá ÍR-ingum sem leyfðu sér að dreyma en Keflavíkingar fóru ekki á taugum og eru nú einum leik frá Bestu deildinni.
Athugasemdir
banner
banner