
„Þetta er virkilega spennandi, það er gott að vera kominn aftur í kringum hópinn og spennandi tímar framundan," sagði Guðlaugur Victor Pálsson leikmaður íslenska landsliðsins við Fótbolta.net í gær en liðið undirbýr sig nú undir leik gegn Þýskalandi í undankeppni HM 2022 næstkomandi fimmtudagskvöld.
„Það er alltaf gaman að spila á móti bestu þjóðunum og bestu leikmönnunum. Þetta verður erfitt verkefni en fótbolti er fótbolti og það er allt hægt í þessu," hélt hann áfram.
„Við förum í þetta verkefni eins og öll verkefni og viljum vinna leikinn og vitum að á góðum degi getum við strítt stóru liðunum."
Ísland teflir fram nýju þjálfarateymi að þessu sinni, Arnar Þór Viðarsson er þjálfari með þá Eið Smára Guðjohnsen og Lars Lagerback sér við hlið. Þeir hafa gefið út að Guðlaugur Victor sé hugsaður sem miðjumaður í liðinu eftir að hafa verið hægri bakvörður hjá forverum þeirra.
„Þetta er spennandi, nýir þjálfarar með nýjar skoðanir á hlutunum. Fyrir mitt leiti skiptir engu máli hvort ég sé hægri bakvörður eða miðvörður. Mig langar að spila og gera mitt besta fyrir liðið, það er mikil tilhlökkun fyrir því," sagði Gulli en hvort finnst honum skemmtilegra?
„Það er bara gaman að spila. Ég lærði nýja hluti á að spila hægri bakvörðinn og fannst það mjög gaman, ég viðurkenni það. Ég er miðjumaður og veit að mínir styrkleikar liggja þar og get ekki sagt til um hvort mér finnst skemmtilegra."
Nánar er rætt við hann í sjónvarpinu að ofan þar sem hann talar um endurkomu Lars Lagerback: „Það bera allir mikla virðingu fyrir honum og það er frábært að fá hans sýn í þetta aftur."
Athugasemdir