Njarðvík 0 - 2 ÍBV
Mörk: Þorlákur Breki Baxter og Arnar Breki Gunnarsson.
Mörk: Þorlákur Breki Baxter og Arnar Breki Gunnarsson.
ÍBV lék í dag sinn síðasta leik fyrir Bestu deildina þegar liðið vann Lengjudeildarlið Njarðvíkur með tveimur mörkum gegn engu í dag.
Eyjamenn, sem eru nýkomnir úr æfingaferð, heimsóttu Njarðvíkinga í dag en spilað var á gervigrasinu fyrir utan Reykjaneshöllina.
ÍBV mætti með sterkt lið til leiks en það vantaði þó þá Matias Edeland og Omar Sowe sem eru að ná sér vegna meiðsla. Jörgen Pettersen var í byrjunarliði Eyjamanna, hans fyrsti leikur með liðinu síðan í desember. Það vantaði einnig talsvert í lið Njarðvíkur, eða fimm leikmenn sem alla jafna eru byrjunarliðsmenn.
Staðan var markalaus í hálfleik en Símon Logi Thasapong fékk besta færi fyrri hálfleiksins. Hann tók vítaspyrnu fyrir heimamenn en brenndi af. Heilt yfir voru Njarðvíkingar betri í fyrri hálfleiknum.
Mörkin komu svo í seinni hálfleik. Breki Baxter, lánsmaður frá Stjörnunni, skoraði fyrir ÍBV og Eyjamaðurinn Arnar Breki, sem byrjaði á bekknum, var einnig á skotskónum en hann innsiglaði sigurinn undir lokin eftir undirbúning frá Víði Þorvarðarsyni.
ÍBV mætir Víkingi á útivelli í 1. umferð Bestu deildarinnar en sá leikur fer fram eftir níu daga. ÍBV er spáð botnsætinu í Bestu deildinni í ár. Liðið komst upp í Bestu deildina í fyrra með því að vinna Lengjudeildina.
Í útvarpsþættinum Fótbolti.net í dag kom fram að ÍBV væri búið að krækja í pólskan markmann og er von á tilkynningu frá Eyjamönnum í næstu viku.
Byrjunarlið ÍBV: Hjörvar Daði; Arnór Ingi, Tomic, Sigurður, Felix; Bjarki Björn, Alex Freyr, Jörgen; Breki Baxter, Sverrir og Oliver.
Athugasemdir