Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindvíkinga, var hress þrátt fyrir þriggja marka tap gegn KR í Lengjubikarnum í dag.
Óli Stefán mætti ákveðinn í viðtal eftir leikinn og hamraði á því að sínir menn ætluðu sér upp um deild í sumar.
Óli Stefán mætti ákveðinn í viðtal eftir leikinn og hamraði á því að sínir menn ætluðu sér upp um deild í sumar.
Lestu um leikinn: KR 3 - 0 Grindavík
„Við vorum bara feimnir við þá, pínu hræddir. Við þurfum að læra það að Grindavík er bara nokkuð stór klúbbur og við þurfum að mæta þeim af meiri krafti," sagði Óli.
„Við fórum yfir þetta í hálfleik, ákváðum að reyna að stýra leiknum og þá komu mjög góðar 20-25 mínútur. Ég hefði viljað fá meira af þessu út í gegnum leikinn.
„Það var allan tímann vitað að KR er með hörkulið og sjálfsagt töluvert betri og sterkari mannskap en við erum með. En við megum aldrei hugsa þannig, þetta er bara ellefu á móti ellefu og við eigum að vinna í því sem við höfum verið að leggja áherslu á.
„Áherslupunktar sem við höfum verið að vinna með, varnarleikur og annað, komu alveg ágætlega í gegn en respectið var of mikið fannst mér."
Óli segir að markmið Grindvíkinga fyrir komandi sumar sé að koma sér upp í Pepsi-deildina á nýjan leik.
„Við hikum ekkert við það, við gefum í og setjum stefnuna á að fara upp og erum ekkert feimnir við að segja það.
„Við erum búnir að vera í pínu vandræðum með mannskap núna í janúar, febrúar og aðeins inn í mars en það er að lagast og við erum að tína saman menn upp úr meiðslum. Við ætlum upp.
„Það eru leikmenn á leiðinni til félagsins og þeir munu koma inn fyrr frekar en seinna.
„Eina sem við þurfum að gera er að hugsa bara um það sem við ætlum að gera. Það skiptir mig engu máli hvað þessi lið heita eða hvað þau ætla að gera. Við ætlum upp og vinnum bara að því, það er einfalt."
Athugasemdir