
Ásgeir Börkur Ásgeirsson, miðjumaður Fylkis, var að vonum ánægður með 3-0 sigur liðsins gegn Stjörnunni í 16-liða úrslitum Borgunarbikarsins í kvöld. Gestirnir úr Árbænum áttu flottan leik og voru verðskuldaðir sigurvegarar.
Lestu um leikinn: Stjarnan 0 - 3 Fylkir
„Ég er virkilega ánægður. Þetta var að mörgu leiti gott framhald af seinasta leik sem við spiluðum við þá, þar sem við vorum með þá fram að markinu sem þeir skoruðu, nema við vorum aðeins einbeittari núna, í staðinn fyrir að gefa mörk þá skoruðum við mörk,“ sagði Ásgeir Börkur eftir leikinn.
Ásgeir Börkur fékk að heyra það frá Guðmundi Óla liðsstjóra Fylkis, sem sagði hann hafa verið arfaslakan í síðasta leik og spurði hvort hann yrði ekki betri í kvöld. Hann svaraði kallinu og átti frábæran leik í Garðabænum.
„Ef Gumma Óla finnst manni vera lélegur, þá þarf maður aðeins að spýta í lófana. Ég held ég hafi gert það í kvöld og allt liðið bara. Það er bara jákvætt,“ sagði hann léttur.
Ásgeir Börkur vill fara alla leið í bikarúrslitin og segir það lengi hafa verið draum sinn.
„Það hefur alltaf verið draumur hjá mér að fara alla leið í þessu helvíti. Þetta er allavega eitt skref og við sjáum til hvað gerist næst,“ sagði Ásgeir Börkur að lokum.
Athugasemdir