Evrópska fótboltasambandið, UEFA, er með hegðun leikmanna Real Madrid til skoðunar eftir að þeir slógu nágranna sína í liði Atlético Madrid úr leik í Meistaradeildinni.
Real Madrid hafði betur gegn Atlético eftir vítaspyrnukeppni í 16-liða úrslitunum og misstu nokkrir leikmenn Real stjórn á tilfinningunum í fagnaðarlátunum. Þeir ögruðu stuðningsmönnum Atlético sem höfðu verið að ögra leikmönnum Real með söngvum sínum allan leikinn.
Antonio Rüdiger, Kylian Mbappé, Dani Ceballos og Vinícius Júnior eru umræddir leikmenn sem fögnuðu óprúðlega, þar sem Rüdiger var meðal annars myndaður við að þykjast skera Atlético á háls.
Rüdiger skoraði úr vítaspyrnunni sem réði úrslitum í vítakeppninni.
Mbappé, Vinícius og Ceballos eru sakaðir um að hafa verið með ósiðlegar bendingar í átt að stuðningsfólki Atlético á leið sinni af vellinum eftir vítakeppnina og er siðanefnd UEFA með málið til skoðunar.
Samkvæmt fótboltareglunum á að gefa leikmönnum rautt spjald fyrir að haga sér með ögrandi hætti gagnvart stuðningsfólki andstæðinganna. Það gæti því verið að Rüdiger, Mbappé, Vinícius og Ceballos verði dæmdir í leikbann fyrir hegðun sína og missi af fyrri leiknum gegn Arsenal í 8-liða úrslitum.
Athugasemdir