PSG og Barcelona vilja Duran - Bayern vill Gyökeres - Juve vill Zirkzee og til í að láta Man Utd fá Vlahovic
   mán 27. apríl 2020 12:07
Hafliði Breiðfjörð
Miðjan
Gat orðið næsti Björgvin Halldórs en valdi fótboltaferil
Guðmundur Torfason er gestur vikunnar í Miðjunni á Fótbolta.net.
Guðmundur Torfason er gestur vikunnar í Miðjunni á Fótbolta.net.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hljómsveitin Sturlungar árið 1979. Guðmundur er með hljóðnemann í miðjunni og við hlið hans er Friðrik Karlsson sem rætt er um í greininni.
Hljómsveitin Sturlungar árið 1979. Guðmundur er með hljóðnemann í miðjunni og við hlið hans er Friðrik Karlsson sem rætt er um í greininni.
Mynd: Þjóðviljinn
Guðmundur Torfason átti frábæran fótboltaferil, er einn þeirra sem eiga 19 marka metið hér á landi og náði góðum árangri erlendis. Það vita færri að hann fórnaði frama í tónlistinni fyrir fótboltann.

Hlustaðu á þáttinn í spilaranum að neðan eða finndu hann á öllum helstu podcastveitum undir Fótbolti.net.

Hann byrjaði meistaraflokksferilinnn með Fram árið 1979 en á þeim tíma var hann söngvari með hljómsveit sem var skipuð meðlimum Mezzoforte sem skemmti reglulega með tónleikahaldi.

„Ég kynntist Gulla Briem og Jóa Ásmunds ásamt Kristjáni Edilstein og Birni Thorarensen þegar við vorum 12 - 13 ára og við spiluðum í nokkur ár saman. Svo urðu einhverjar breytingar og Friðrik Karlsson, Eyþór Gunnarsson og Ellen Kristjánsdóttir komu inn í þetta," sagði Guðmundur í Miðjunni en hljómsveitin hét Sturlungar og breyttist í Norðurljós þegar Ellen bættist í hópin.

„Þetta var ótrúlegur tími og ég svaf varla því ég var í fótboltanum líka. Það var spilað út í eitt og við komumst inn á Klúbbinn sem var duglegur að taka nýliða inn til sín. Magnús Leopoldson fékk okkur fyrst inn 15 - 16 ára gömul og það varð framhald á. Svo togaðist á hjá mér músík og fótbolti."

„Þetta var gaman en þegar það kom meiri alvara í fótboltann og ég var valinn í unglingalandslið fór fókusinn meira á fótboltann. Það var ekki kristilegur tími að vera spilandi á böllum og vera í fótbolta þó reglulsemin hafi verið ágæt. Þetta voru lög sem voru vinsæl á þeim tíma, Santana, Toto, Kansas og fleiri samtímalög."

„Í fótboltanum í den kláruðust mótin á haustin og svo stundum ekki byrjað að æfa fyrr en 1. febrúar. Þá var tíðarandinn annar og ég var íhlaupamaður í tónlistinni áfram. Fljótlega fóru Mezzoforte og Ljósin í bænum að spila og ég einbeitti mér að fótboltanum. Það fylgir tónlistinni svakaleg óregla og ég hafði áhuga á fótbolta líka og vildi ná langt þar. Þá þurfti ég að fórna einhverju og ég tók þá ákvörðun að hætta þessu alveg. Ég syng bara í sturtunni í staðinn."

Fótbolti.net ræddi á dögunum við Friðrik Karlsson gítarleikara Mezzoforte um Guðmund sem söngvara á þeim árum og Friðrik sagði að hann hefði vel getað náð jafnlangt og Björgvin Halldórsson ef hann hefði lagt sönginn fyrir sig. Þegar þetta var nefnt við hann í viðtalinu sagði hann.

„Það er ekki leiðum að líkjast, Björgvin Halldórsson er minn uppáhalds söngvari. Þetta er aldeilis hól. En þetta er eins og ef og hefði, kannski tek ég upp plötu í ellinni og rifja upp gömul lög með Hauki Morthens."

Mezzoforte nokkrum árum síðar heimsfræg þegar hún komst hátt á vinsældarlistum í Bretlandi árið 1983.

„Þeir urðu á endanum leiðir á að spila fyrir söngvara og ákváðu að fara í instrumental. Þeir eru ansi hæfir og að mínu mati með bestu hljóðfæraleikum heims," sagði Guðmundur.
Miðjan - Gummi Torfa valdi fótboltaferil fram yfir tónlistina
Athugasemdir
banner
banner