Hópur fótboltaáhugamanna leiddur af Mate Dalmay hefur gengið frá kaupum á félaginu Fótbolti ehf., sem á og rekur hina vinsælu vefsíðu Fótbolti.net. Með kaupunum tekur hópurinn við rekstri vefsins sem hefur verið leiðandi miðill í umfjöllun um íslenskan og alþjóðlegan fótbolta undanfarin tuttugu ár.
Mate Dalmay, sem fer fyrir nýjum eigendahópi, segir kaupin tákna mikla trú á framtíð Fótbolti.net og mikilvægi miðilsins í íslensku íþróttalífi.
„Fótbolti.net hefur verið ómetanlegur vettvangur fyrir fótboltaáhugafólk á Íslandi. Við ætlum að halda áfram því góða starfi sem þegar hefur verið unnið, styðja við ritstjórnina og þróa miðilinn enn frekar með nýjum tæknilausnum og efni,“ segir Mate Dalmay en hann hefur starfað við vefinn í um 15 ár við auglýsingasölu.
Stofnandi vefsins Hafliði Breiðfjörð hefur gegnt lykilhlutverki í þróun og vexti Fótbolti.net frá upphafi. Honum er þakkað fyrir sín brautryðjendastörf og ómetanlegt framlag til íslenskrar
fótboltaumfjöllunar undanfarin 23 ár. Með elju sinni, hugsjón og fagmennsku hafi hann markað djúp spor í íslenska fótboltasögu og skapað vettvang sem hefur sameinað knattspyrnuáhugamenn um land allt. Magnús Már Einarsson selur einnig sinn 5% hlut í miðlinum og eru honum jafnframt færðar kærar þakkir fyrir frábær störf en undanfarin ár hefur Magnús ekki átt að komu að rekstrinum og snúið sér alfarið að þjálfun.
Með kaupunum er tryggt að Fótbolti.net heldur áfram sem sjálfstæður og öflugur miðill, þar sem fagmennska, áreiðanleiki og ástríða fyrir fótbolta eru í forgrunni. Núverandi starfsfólk heldur áfram störfum og verður breytingin því hnökralaus fyrir notendur vefsins.
„Fótbolti.net hefur um árabil verið ein helsta upplýsingaveita landsins fyrir allt sem viðkemur fótbolta, með ítarlegum leikjalýsingum, fréttaflutningi, viðtölum og greiningum. Nýir eigendur hyggjast styrkja þessa stöðu enn frekar á komandi misserum, “ segir Daníel Rúnarsson, einn af nýjum eigendum og nýr stjórnarformaður Fótbolta.net, en hann hefur tengst vefnum með ýmsu móti frá árinu 2005, fyrst sem ljósmyndari og síðar hönnuður og ráðgjafi.
Athugasemdir