mán 31. október 2022 10:26
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Hann hætti af persónulegum ástæðum og það er bara þannig"
Ólafur Karl Finsen.
Ólafur Karl Finsen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það kom fram í síðustu viku að Ólafur Karl Finsen hefði rift samningi sínum við Stjörnuna af persónulegum ástæðum.

Óli Kalli er uppalinn í Stjörnunni og varð hann Íslandsmeistari með liðinu ári 2014. Ljóst er að hann verður ekki með liðinu á næsta tímabili. Samningur hans átti að renna út eftir tímabilið.

Hann kom aftur í Stjörnuna frá Val fyrir tímabilið 2021. Tímabilin 2018-19 var hann á Hlíðarenda og seinni hluta tímabilsins 2020 var hann á láni frá Val frá FH.

Óli Kalli hefur leikið með AZ Alkmaar, Selfossi, Sandnes Ulf, Val og FH auk Stjörnunnar á ferlinum. Á þessu tímabili hefur hann komið við sögu í sautján deildarleikjum og skorað eitt mark.

Ágúst Gylfason, þjálfari Stjörnunnar, var spurður út í brotthvarf Óla Kalla í viðtali eftir leikinn gegn KR um liðna helgi, leik sem var í lokaumferð Bestu deildarinnar.

„Við vorum að klára mótið og við ætlum ekki að ræða Óla Kalla hér á þessu stigi. Hann hætti af persónulegum ástæðum og það er bara þannig," sagði Ágúst.

Undirritaður náði tali af Óla Kalla í síðustu viku en þá hafði hann ekki áhuga á því að tjá sig um málið.

Í slúðurpakkanum í síðustu viku var Ólafur Karl orðaður við ÍBV.
Athugasemdir
banner