Brynjar Ásgeir Guðmundsson er hættur hjá Grindavík og ætlar að finna sér annað lið til að leika með á komandi leiktíð.
Þetta staðfesti hann við Fótbolta.net í dag. „Ég ákvað að kalla þetta gott í Grindavík og er klár í nýja áskorun," sagði hann.
Hann staðfesti að hann hafi rætt við önnur félög en ekkert sem sé komið langt í viðræðum.
Brynjar Ásgeir spilaði 13 leiki með Grindavík í Pepsi-deildinni í sumar en handarbrot um mitt mót setti þar strik í reikninginn.
Hann er uppalinn hjá FH þar sem hann hóf meistaraflokksferilinn árið 2012 og lék út tímabilið 2016 er hann fór í Grindavík.
Hann er fjölhæfur leikmaður, getur spilað allar stöður á vellinum og á að baki 92 leiki í deild og bikar og hefur skorað 6 mörk.
Athugasemdir