Manchester City hefur áhuga á Douglas Luiz - Neymar er á leið heim í Santos - Chelsea er með 40 milljóna punda verðmiða á Trevoh Chalobah.
   þri 02. nóvember 2021 10:57
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Pétur Theódór líklega með slitið krossband - „Hélt ég væri búinn með þennan pakka"
Pétur var markakóngur í Lengjudeildinni í sumar með Gróttu.
Pétur var markakóngur í Lengjudeildinni í sumar með Gróttu.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Pétur Theódór Árnason meiddist á æfingu með Breiðabliki í gær og er líklega með slitið krossband. Pétur gekk í raðir Breiðabliks eftir tímabilið í ár frá Gróttu.

Pétur hefur slitið tvisvar áður en talsvert er síðan það gerðist. Fótbolti.net heyrði í Pétri í dag.

„Ég sem sagt meiddist á æfingu í gær, það er eitthvað sem gerist í hnénu sem ég kannast smá við. Ég er ekki búinn að fá út úr neinu. Ég hef slitið krossband tvisvar áður, síðast fyrir sjö árum. Þetta hljómaði mjög kunnulega," sagði Pétur.

„Ég er á hækjum, mjög bólginn og með einhvern verk. Ég er á verkjalyfjum og er að bíða eftir segulómun. Ég vonast eftir því að fá niðurstöðu úr því í vikunni."

Hvernig gerist þetta?

„Þetta var í raun bara stefnubreyting og ég festist smá í grasinu. Ég var að elta einn leikmann, ekkert högg eða neitt þannig. Ég missi hnéð inn og fæ slink inn í hnénu."

Hvaða hugsaru á þessu augnabliki?

„Ég hélt ég væri búinn með þennan pakka, það var orðið það langt síðan síðast. Ég er nýmættur í nýtt lið og þá gerist þetta aftur. Maður hugsar bara hvað gerist næst," sagði Pétur.

Ef framherjinn er með slitið krossband eru allar líkur á því að hann missi af langstærstum hluta næsta tímabils með Blikum.
Athugasemdir
banner