Fernandes og De Bruyne til Sádí-Arabíu? - Salah fær nýjan samning - Calafiori til Arsenal
   mið 03. júlí 2024 22:25
Brynjar Ingi Erluson
Mjólkurbikarinn: Víkingur í úrslit eftir sigur í vítakeppni - Geta jafnað 60 ára gamalt met KR-inga
Víkingar mæta KA í úrslitum
Víkingar mæta KA í úrslitum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mathias Rosenörn kom Stjörnumönnum alla leið í vítakeppni með stórkostlegum leik sínum
Mathias Rosenörn kom Stjörnumönnum alla leið í vítakeppni með stórkostlegum leik sínum
Mynd: Stjarnan
Ingvar Jónsson var hetja Víkinga í vítakeppninni
Ingvar Jónsson var hetja Víkinga í vítakeppninni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur R. 1 - 1 Stjarnan (5-4 eftir vítakeppni)
1-0 Danijel Dejan Djuric ('42 )
1-1 Guðmundur Kristjánsson ('90 )
Lestu um leikinn

Íslands- og bikarmeistarar Víkings eru komnir í úrslit Mjólkurbikarsins í fimmta sinn í röð eftir að liðið vann Stjörnuna eftir vítakeppni, 5-4.

Víkingar byrjuðu leikinn betur. Erlingur Agnarsson fékk besta færi heimamanna á 11. mínútu er boltinn barst til hans í teignum en skot hans hafnaði í stöng.

Danijel Dejan Djuric skoraði mark Víkinga á 42. mínútu. Pablo Punyed vann tæklingu og fór boltinn á Danijel sem var í teignum. Hann tók nokkrar fintur áður en hann smellti boltanum þéttingsfast á milli lappa Mathias Rosenörn.

Síðari hálfleikurinn fór rólega af stað og var það ekki fyrr en á lokamínútunum sem það fór að færast meiri spenna í leikinn.

Óli Valur Ómarsson fékk frábært færi í liði Stjörnunnar þegar sjö mínútur voru eftir. Hann fékk boltann hægra megin í teignum og var kominn í einn á einn stöðu gegn Ingvari Jónssyni, en fyrrum landsliðsmarkvörðurinn varði frábærlega með löppunum.

Helgi Guðjónsson gat gert út um leikinn á lokamínútunum er Víkingar keyrðu hratt upp en skot hans beint á Mathias í markinu. Illa farið með gott færi.

Aðeins tveimur mínútum síðar steinlá Helgi eftir fast skot Ara Sigurpálssonar. Óhugnanlegt atvik en hann stóð á lappir skömmu síðar og hélt leik áfram.

Á fimmtu mínútu í uppbótartima kom dramatískt jöfnunarmark Stjörnunnar. Langur bolti fram völlinn og var það Örvar Eggertsson sem skallaði hann niður fyrir Guðmund Kristjánsson sem skoraði listavel í vinstra hornið. Frábær afgreiðsla hjá fyrirliðanum.

Svekkjandi fyrir Víkinga sem voru nokkrum sekúndum frá úrslitum en framlenging var það.

Snemma í framlengingunni komst varamaðurinn Davíð Örn Atlason í hörkufæri eftir langan bolta fram völlinn. Rosenörn náði hins vegar að loka vel á skotið.

Víkingar fengu bestu færin í fyrri hlutanum. Undir lokin fékk Erlingur gott færi til að skora annað mark Víkinga eftir glæsilega fyrirgjöf Danijels en skot hans ekki nógu kraftmikið.

Snemma í þeim síðari átti Rosenörn einhverja rosalegustu vörslu sumarsins. Davíð Örn átti sendingu inn í teiginn á Gísla Gottskálk Þórðarson sem tæklaði boltann í átt að marki. Viðbrögð Rosenörn voru stórkostleg en hann náði að verja boltann í stöng og út. Magnaður í leiknum.

Stjörnumenn náðu ekkert að skapa sér í framlengingunni og spiluðu upp á vítakeppni, sem tókst. Víkingar skoruðu úr öllum fimm vítum sínum í vítakeppninni en Ingvar Jónsson varði eitt frá Hauki Erni Brink.

Víkingar í úrslit í fimmta sinn í röð!

Vítaspyrnukeppnin:
0-1 Emil Atlason
1-1 Danijel Dejan Djuric
1-2 Örvar Eggertsson
2-2 Helgi Guðjónsson
2-2 Ingvar ver frá Hauki
3-2 Viktor Örlygur Andrason
3-3 Baldur Logi Guðlaugsson
4-3 Gunnar Vatnhamar
4-4 Hilmar Árni Halldórsson
5-4 Ari Sigurpálsson

Víkingsliðið hafði einu sinni unnið bikarinn einu sinni áður en það vann keppnina undir stjórn Arnars Gunnlaugssonar árið 2019 og hafa unnið keppnina allar götur síðan.

Að vísu var liðið slegið úr bikarnum árið 2020 en keppnin var flautuð af í undanúrslitum vegna Covid.

Víkingur vann árin 2021 og 2022, ásamt því að vinna KA-menn á síðasta ári, en það verður einmitt endurtekning á þeim leik í ár þar sem KA vann Val í gær.

Úrslitaleikurinn fer fram föstudaginn 23. ágúst á Laugardalsvelli og geta Víkingar unnið keppnina í fimmta sinn í röð og þar með jafnað met KR, en KR-ingar unnu bikarinn fimm sinnum frá 1960 til 1964.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner