Portúgalski leikmaðurinn Jota Silva komst í fréttirnar á síðasta ári og ekki bara fyrir hæfileika sína á vellinum heldur fannst mörgum hann nauðalíkur enska landsliðsmanninum Jack Grealish. Hann segir það heiður að vera líkt við Englendinginn.
Silva gekk í raðir Nottingham Forest frá Vitoria Guimaraes í sumar eftir að hafa spilað frábærlega í Portúgal og fengið tækifærið með portúgalska landsliðinu.
Útlit hans minnir gríðarlega á Grealish. Báðir eru með sömu greiðslu og spila með lága sokka en Jota segir þá mjög ólíka leikmenn.
„Þetta hefur verið að ganga í einhvern tíma og get ég ekki neitað því að það eru líkindi. Við erum samt mjög ólíkar týpur inn á velli og með ólíkan stíl. Hárið og lágu sokkarnir gefa þessu meira vægi. Jack er frábær leikmaður og það er heiður að vera líkt við hann,“ sagði Jota við Sun.
Bernardo Silva grínaðist með það í sumar að hann ætlaði að taka Jota með sér á æfingu hjá Manchester City og sjá hvort Pep Guardiola, stjóri liðsins, tæki eftir því.
„Við grínuðumst aðeins með þetta þegar við vorum með portúgalska landsliðinu, en ég er hjá Forest og er það liðið sem ég mun spila fyrir. Kannski fæ ég tækifæri til að ræða við Jack eftir leikinn gegn Man City,“ sagði Jota.
Man City tekur á móti Forest á Etihad á morgun en meistararnir hafa ekki unnið í síðustu sjö leikjum sínum í öllum keppnum.
Athugasemdir