Luis Campos, sérstakur fótboltaráðgjafi Paris Saint-Germain, segir að Kylian Mbappe verði áfram hjá félaginu og ætli ekki að reyna að komast í annað lið í janúar.
Franskir og spænskir fjölmiðlar greindu frá því í dag að Mbappe ætlaði sér að fara í janúar.
Er talið að Mbappe vilji fara eftir að Christophe Galtier, þjálfari liðsins, braut loforð um að spila honum í ákveðnu hlutverki í sóknarleiknum.
PSG hefur neitað þessum fregnum og þá hefur Campos, sem sér um kaup og sölur hjá félaginu, hafnað þessu.
„Við neitum þessum fregnum, alla vega af okkar hálfu. Hvort Mbappe sé ánægður eða ekki er eitthvað sem þú þarft að spyrja hann að. Þetta er rosalega persónuleg spurning. Ég sé Kylian vinna og hann er einstakur atvinnumaður. Sem dæmi þá spilaði hann veikur í síðasta leik gegn Reims og lagði sitt af mörkum. Hann kemur hér á hverjum degi með liðsfélögum sínum, er ánægður og vill vinna fyrir liðið."
„Þetta kemur mér á óvart því ég er með honum á hverjum degi og hann hefur aldrei spurt mig. Ég spurði forsetann og hann sagði mér að Mbappe bað aldrei um að fara í janúar. Ég held að hann sé ekkert að hugsa um þetta því ef hann er að því þá segir hann mér frá því. Hann hefur aldrei sagt mér neitt og ég veit að hann hefur ekkert sagt við forsetann að hann vilji fara. Þetta eru bara upplýsingar. Það er engin yfirlýsing og þú verður að átta þig á því að þetta kemur nokkrum klukkutímum fyrir rosalega mikilvægan leik. Það er mikilvægt að ræða við fjölmiðla og þess vegna er ég hér. Við heyrum orðróma á hverjum degi og það er eðlilegt þegar þú ert með þrjá af fimm mikilvægustu leikmönnum heims.
„Ég held að hann verði áfram í janúar. Hann hefur aldrei sagt neitt við mig. Ég held að það sé ljóst að hann verði áfram og virði samning sinn við PSG," sagði Campos.
Athugasemdir