Daniele De Rossi skrifaði í dag undir tveggja ára samning við SPAL, De Rossi tekur við sem aðaþjálfari ítalska liðsins.
De Rossi er 39 ára Rómverji sem lék með AS Roma lengstum af sínum ferli, allt þar til hann fór til Boca Juniors árið 2019 og lék þar fimm leiki áður en hann lagði skóna á hilluna. De Rossi er næst leikjahæsti leikmaður Roma í sögunni á eftir Francesco Totti.
Hann var á síðasta ári aðstoðarmaður Roberto Mancini með ítalska landsliðið sem varð Evrópumeistari en núna tekur hann við sínu fyrsta aðalþjálfarastarfi.
De Rossi lék á sínum ferli 117 landsleiki fyrir Ítalíu og varð heimsmeistari með liðinu árið 2006. Þá var hann í liði ársins á EM árið 2012.
SPAL er í Serie B á Ítalíu og er liðið í 14. sæti eftir átta umferðir. Liðið hefur tapað síðustu tveimur leikjum og er fyrsti leikur liðsins undir stjórn De Rossi gegn Cittadella á laugardag.
Athugasemdir