Pep Guardiola. stjóri Manchester City, var nokkuð sáttur við frammistöðu liðsins í markalausa jafnteflinu gegn FCK í Meistaradeild Evrópu í kvöld, en City lék manni færri í rúman klukkutíma.
Man City fékk heldur betur sénsa til að skora. Rodri kom boltanum í netið snemma leiks með þrumuskoti fyrir utan teig en markið dæmt af þar sem Riyad Mahrez handlék knöttinn í aðdragandanum.
Mahrez gat svo komið City yfir er liðið fékk vítaspyrnu stuttu síðar en Kamil Grabara varði vel frá honum. Ekkert virtist ganga upp og á 30. mínútu var Sergio Gomez rekinn af velli er hann reif í Hákon Arnar Haraldsson sem var að sleppa í gegn.
City er með 10 stig þegar tveir leikir eru eftir og getur liðið tryggt farseðilinn í 16-liða úrslit í næstu umferð gegn Dortmund.
„Við byrjuðum mjög vel gegn ellefu. Síðan þurftum við að hanga í leiknum í klukkutíma og tíu mínútur. Við vorum sniðugir þegar við vorum með boltann og þetta er gott stig."
„Við erum ekki tölfræðilega komnir áfram en næstum því komnir í næstu umferð."
„Ég sá þetta ekki í sjónvarpinu. Við náðum að aðlagast vel og FCK er aðeins of gott lið."
„Við erum nálægt þessu núna. Þurfum að fara til Dortmund og klára dæmið," sagði Guardiola.
Athugasemdir