Kvennalandsliðin spiluðu vináttuleiki í kvöld á meðan önnur lið voru að spila í umspili fyrir HM en England gerði óvænt markalaust jafntefli við Tékkland.
Sarina Wiegman, þjálfari Englands, stillti upp nokkuð sterku liði gegn Tékkum og fékk enska liðið talsvert af færum til að ganga frá leiknum en inn vildi boltinn ekki.
England sættir sig við jafntefli og hefur því liðið spilað 24 leiki án þess að tapa.
Noregur lagði Holland, 2-0. Sophie Haug skoraði fyrra markið en síðara var sjálfsmark.
Svíar skelltu Frökkum, 3-0. Filippa Angeldal skoraði strax á fyrstu mínútu leiksins og gerði Amanda Ilestedt annað markið þegar fimmtán mínútur voru búnar af síðari hálfleik. Aissatou Tounkara fékk rauða spjaldið í liði Frakklands stuttu síðar áður en Madelen Janogy gekk frá Frökkum með þriðja markinu.
Bandaríkin töpuðu enn einum vináttulandsleiknum og í þetta sinn fyrir Spánverjum, 2-0. Laia Codina og Esther Rodriguez með mörkin en Bandaríkin tapaði einnig fyrir Evrópumeisturum Englands á dögunum.
Athugasemdir