
Albert Brynjar Ingason skoraði mark í fyrsta opinbera mótsleik sínum fyrir Kórdrengi í kvöld. Albert hljóp eins og hestur allan liðlangan leikinn í leit af marki og fékk mörg fín marktækifæri. Markið sem hann skoraði kom rétt fyrir leikslok og var Albert virkilega kátur með það.
„Ég fór illa með mörg góð færi í dag og það á það til að vera þannig að þegar maður klúðrar öðru eða þriðja færinu þá verður maður svolítið pirraður og missir haus" segir Albert sem spurði dómarann rétt fyrir leikslok hvað það væri mikil tími eftir. „Hann gaf það svar að 2-3 mínútur væru eftir og ég hugsaði með mér að kannski fæ ég eitt gott tækifæri í viðbót. Fékk eitt gott færi í viðbót en klúðraði því líka þannig ég var búinn að gefa upp alla von." segir Albert og bætir við að hann hefði verið brjálaður ef hann hefði ekki náð að skora. „Ég held það sé ástæðan að ég var eini gæinn í stöðunni 5-0 að hlaupa á eftir öllum helvítis boltunum því ég var fúll út í sjálfan mig að hafa ekki nýtt þessi færi en það datt allavega." segir Albert glaður.
Albert er spenntur fyrir komandi tímabili með kórdrengjum og markmiðið er skýrt, að komast beint upp úr annari deildinni.
„Við viljum komast upp. Kórdrengir eru búnir komast upp síðustu tvö ár og við stefnum á það þriðja árið að komast upp. Við vitum að það verður ekki auðvelt verkefni, einhverjir eru búnir að gefa það út að það verði bara gefið fyrir okkur að fara upp en alls ekki. Við erum liðið sem allir vilja vinna." segir Albert Brynjar. Viðtalið í heild má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir