Arnar Grétarsson segist þakklátur fyrir þann tíma sem hann átti með KA á Akureyri.
Arnar mun taka við Val eftir tímabilið. Hann var látinn fara frá KA um daginn eftir að hann náði munnlegu samkomulagi við annað félag en það félag er Valur.
Arnar stýrði KA í um tvö ár og náði virkilega góðum árangri þar. Hann segist hafa notið hverrar mínútu hjá félaginu.
„Nú þegar leiðir skiljast eftir rúm tvö ár. Þá kemur margt upp í hugann en fyrst og fremst er það risa þakklæti til alls góða fólksins sem ég vann með og kynntist á þessari skemmtilegu vegferð að þjálfa meistaraflokk KA í knattspyrnu," skrifar Arnar á Facebook.
„Andrúmsloftið í KA-heimilinu er einstakt, það er svo mikil samheldni og samgangur milli þjálfara og leikmanna mismunandi deilda sem gerir vinnuna svo miklu skemmtilegri heldur en ella.
Ég og fjölskylduna mín höfum notið Akureyrar í botn, veðrið, náttúran, Hlíðarfjall svo eitthvað sé nefnt, við eigum klárlega eftir að sakna Akureyrar en við yfirgefum með margar góðar minningar í farteskinu og erum gríðarlega þakklát fyrir tímann okkar."
„Mig langar að þakka öllu starfsfólki í KA heimilinu, öllum þjálfurum í KA og leikmönnum, stjórn knattspyrnudeildar, öllum í kringum meistaraflokkinn, þjálfurum mfl. Hadda, Steina, Igor, Bane, Eið, Dóra, Petar og sjálfsögðu frábæru leikmönnum meistaraflokks KA fyrir frábæran tíma og hef ég notið hverrar mínútu með ykkur og á ég klárlega eftir að sakna ykkar."
Næsta verkefni hjá Arnari er að taka við Val og verður fróðlegt að sjá hvernig honum vegnar þar.
Athugasemdir