Raphinha og Camavinga til Manchester - Thuram til ensks toppliðs - Newcastle með plan ef Isak fer
banner
   mið 12. október 2022 14:08
Elvar Geir Magnússon
Fjármálaóreiða hjá Everton og endurskoðandinn ætlar að stökkva frá borði
Farhad Moshiri, eigandi Everton.
Farhad Moshiri, eigandi Everton.
Mynd: EPA
Guardian segir að endurskoðunarfyrirtækið BDO sem hefur séð um ársreikninga enska úrvalsdeildarfélagsins Everton síðustu tvö ár hafi tilkynnt félaginu að það vilji ekki taka það verkefni að sér að þessu sinni.

Þetta gefur fréttum um fjármálaóreiðu innan Everton byr undir báða vængi en því hefur verið haldið fram að eigandinn Farhad Moshiri vilji selja félagið.

Talsmaður Moshiri segir að BDO muni halda áfram að sjá um ársreikningana en fyrirtækið sjálft hefur ekki viljað staðfesta það. Guardian segist hafa það frá áreiðanlegum heimildum að Everton sé í leit að nýjum endurskoðanda.

Öll stærri fyrirtæki á Bretlandseyjum þurfa samkvæmt lögum að láta endurskoða reikninga sína en óvenjulegt er að endurskoðunarfyrirtæki hafni viðskiptavinum sínum. Næsti ársreikningur Everton á að vera kynntur í lok mars á næsta ári.

Fjárhagsstaða félagsins hefur verið í umræðunni síðan refsiaðgerðum var beitt gegn rússneska milljarðamæringnum Alisher Usmanov sem lengi hefur verið viðskiptafélagi Moshiri. Fyrirtæki Usmanov hefur verið einn helsti styrktaraðili Everton og keypti forkaupsrétt á nafnaréttinum á nýjum leikvangi Everton sem er í byggingu. Usmanov var beittur refsiaðgerðum eftir innrás Rússlands í Úkraínu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner