Clarence Seedorf, fyrrum leikmaður Real Madrid og hollenska landsliðsins, segir að Xavi, þjálfari Barcelona, þurfi að sýna meiri virðingu fyrir dómurum.
Xavi var allt annað en sáttur við dómgæsluna í 1-0 tapi Barcelona fyrir Inter í síðustu viku og hafði hann að vísu fulla ástæðu til enda var línan fremur undarleg.
Dómarinn dæmdi mark af Barcelona er Ansu Fati fékk boltann í höndina og svo síðar í leiknum gerðist það nákvæmlega sama fyrir Denzel Dumfries hinum megin á vellinum en engin vítaspyrna dæmd.
Xavi brjálaðist eftir leik og kenndi dómaranum um en Seedorf segir að hann verði að hætta þessu. Seedorf er vissulega svolítið hlutdrægur þegar hann talar um Barcelona, eftir að hafa spilað fyrir bæði Real Madrid og Inter á ferlinum.
„Barcelona að kenna dómaranum um? Þetta er í vana hjá félaginu að setja pressu á dómarann. Xavi ætti að sýna smá virðingu. ÞEtta var alveg eins þegar hann var að spila og þetta er partur af menningunni hjá félaginu, en það virkar ekki jafn vel nú þegar VAR er komið," sagði Seedorf.
Athugasemdir