Guehi vill fara til Liverpool - Real Madrid ætlar að fá Saliba - Kolo Muani til Newcastle?
banner
   fim 13. október 2022 12:27
Elvar Geir Magnússon
Fáir í leikmannahópi PSG sem standa með Mbappe
Kylian Mbappe er að verða einangraðri innan leikmannahóps PSG.
Kylian Mbappe er að verða einangraðri innan leikmannahóps PSG.
Mynd: EPA
Það logar allt í deilum og dramatík hjá PSG og samkvæmt frönskum fjölmiðlum er Kylian Mbappe búinn að missa stuðning flestra liðsfélaga sinna. Menn eru pirraðir á þeim forréttindum sem hann nýtur hjá félaginu.

Mbappe hætti við að ganga í raðir Real Madrid í sumar og skrifaði undir risastóran nýjan samning við Frakklandsmeistarana, samning sem færir honum 650 þúsund pund í vikulaun.

Ofan á það var Mbappe lofað að vera með rödd í ákvarðanatökum félagsins.

Fyrr í vikunni bárust fréttir af því að Mbappe vilji skyndilega yfirgefa PSG þar sem hann telur að stjórn félagsins hafi svikið loforð. Margir liðsfélagar hans eru ósáttir við hegðun Mbappe sem er sífellt að verða einangraðri í leikmannahópnum.

Eins og frægt er þá er stirrt samband milli Mbappe og Neymar en brasilíski sóknarmaðurinn er allt annað en sáttur við þau völd sem Mbappe hefur innan félagsins. Það sést utan vallar og einnig innan hans að það er ekki gott milli þessara tveggja risastjarna.

Franskir fjölmiðlar segja að aðeins Presnel Kimpembe, Nordi Mukiele, Hugo Ekitike og Achraf Hakimi standi með Mbappe í leikmannahópi PSG.

Það er ekkert nýtt að talað sé um að klefinn sé sundraður hjá PSG. Heimildarmaður innan félagsins segir við franska fjölmiðla að Mbappe segi ekki orð þegar hann mætir á æfingasvæðið og horfi ekki lengur í augun á neinum. Þannig hafi það alls ekki verið, Mbappe hafi verið vanur því að mæta brosandi, grínaðist oft í mannskapnum og heilsaði öllum. Það hafi breyst á þessu tímabili.

Mbappe er hæstlaunaði leikmaður í sögu franska fótboltans og er samband hans við íþróttaráðgjafa félagsins Luis Campos mjög náið. Það er talið tengjast þeim sögusögnum að Campos virðist á förum frá félaginu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner