Sebastian Larsson er núna að leika sitt síðasta tímabil á ferlinum en hann hefur gefið það út að hann muni hætta að því loknu.
Hann greinir frá þessu í samtali við heimasíðu AIK, en hann hefur spilað með félaginu frá 2018.
„Fótbolti hefur gefið mér svo mikið og verið stór hluti af mínu lífi. Ég hef núna tekið þá erfiðu ákvörðun að ljúka ferlinum eftir þetta tímabil," segir Larsson sem er 37 ára gamall.
Larsson hefur á sínum ferli leikið 133 A-landsleiki fyrir Svíþjóð og lék hann lengi á Englandi með Arsenal, Birmingham, Sunderland og Hull City.
Núna taka við önnur verkefni hjá honum en það eru fimm leikir eftir á ferli hans. AIK á fimm leiki eftir í sænsku úrvalsdeildinni en liðið situr sem stendur í fimmta sæti, sjö stigum frá toppnum.
Athugasemdir