FH er með fjögur stig eftir fyrstu tvær umferðir Bestu deildarinnar en liðið vann 1-0 iðnaðarsigur við gamaldags aðstæður á frjálsíþróttavellinum í Kaplakrika í dag.
Lestu um leikinn: FH 1 - 0 Stjarnan
„Við erum nokkuð sáttir. Við spiluðum vel í Framleiknum, varnarleikurinn hélt í dag og var betri eftir því sem leið á leikinn. Þegar leið á leikinn komumst við betur inn í þetta og fengum betri opnanir," sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, eftir leikinn.
„Vallaraðstæður höfðu auðvitað einhver áhrif á leikinn en völlurinn var miklu betri en ég átti von á. Það var ekkert stórmál að spila góðan fótbolta á honum."
Vuk Oskar Dimitrijevic skoraði annan leikinn í röð og tryggði FH sigurinn. Vuk hefur fengið mikið lof í upphafi tímabils en Heimir segir mikilvægt að sóknarmaðurinn ungi haldi sig á jörðinni.
„Vuk hefur verið flott. Hann þarf bara að finna stöðugleika. Þeir tóku fast á honum í fyrri hálfleik en hann óx eftir því sem leið á leikinn og var flottur í seinni hálfleik. Hann þarf bara að spá ekki of mikið í því sem þið fjölmiðlamenn segið heldur einbeita sér að því að standa sig vel."
Athugasemdir