Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna enska sóknarmannsins Mason Greenwood.
Greenwood var handtekinn í lok janúar eftir að hann var sakaður um nauðgun og alvarlega líkamsárás gagnvart kærustu sinni.
Harriot Robson, fyrrverandi kærasta Greenwood, birti átakanlegar myndir af áverkum sínum auk þess sem hún birti hljóðupptöku þar sem Greenwood neyðir hana til að stunda við sig samræði.
Greenwood var færður til yfirheyrslu og var síðan sleppt úr haldi gegn tryggingu. Hann hefur verið laus gegn tryggingu síðan, en hann er sagður hafa brotið reglur og haft samband við fyrrverandi kærustu sína.
Í dag var svo greint frá því að Greenwood hefur verið kærður fyrir tilraun til nauðgunar, morðhótanir og líkamsárás gegn Robson, en hann mun fara fyrir dóm á mánudag.
Manchester United hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna Greenwood og kemur þar fram að leikmaðurinn sé áfram í banni.
„Manchester United er meðvitað um þær ákærur sem saksóknaraembættið hefur lagt á hendur Greenwood. Hann verður áfram í banni hjá félaginu á meðan beðið er eftir niðurstöðu í dómsmálinu," segir í yfirlýsingu Man Utd.
Athugasemdir