Orri Sigurður Ómarsson, 27 ára varnarmaður Vals, hefur framlengt samning sinn við félagið til næstu tveggja ára.
Orri, sem er uppalinn hjá HK, gekk í raðir Vals árið 2015 en hann hefur einnig spilað í Noregi með Sarpsborg og HamKam og þá var hann á mála hjá AGF í Danmörku á sínum tíma.
Valur keypti hann aftur til félagsins frá Sarpsborg árið 2019.
Orri hefur ekkert spilað með Val í sumar en hann sleit krossband í æfingaleik gegn KA rétt fyrir mót.
„Orri gekk til liðs við knattspyrnufélagið Val árið 2015 frá AGF í Danmörku. Árið 2018 var Orri seldur til Sarpsborg 08 í Noregi og kom til baka 2019. Orri hefur leikið 130 leiki fyrir Val, fjóra A landsleiki og 67 leiki með yngri landsliðum Íslands. Orri er 27 ára og gerir samning til næstu tveggja ára," segir í tilkynningu frá Val.
Arnar Grétarsson tekur við Val eftir þetta tímabil en honum tókst að koma KA í Evrópukeppni áður en leiðir skildu.