Ísak Bergmann Jóhannesson var í byrjunarliði FCK sem heimsótti Brondby í dönsku deildinni í dag. Orri Steinn Óskarsson var á bekknum en Hákon Arnar ekki í hóp.
FCK var marki undir í hálfleik en Orri Steinn kom inn á strax í upphafi síðari hálfleik.
FCK átti margar tilraunir að marki en aðeins tvær á markið, önnur þeirra var á 8. mínútu í uppbótartíma en þar var hinn ungi Roony Bardghji á ferðinni en hann skoraði og tryggði liðinu jafntefli.
OB gerði markalaust jafntefli gegn Viborg en Aron Elís Þrándarson lék síðasta hálftímann.
FCK er í 6. sæti með 17 stig eftir 13 leiki, jafn mörg stig og Midtjylland sem er í sætinu fyrir ofan. OB er í 9. sæti með 16 stig.
Arnór Gauti Ragnarsson skoraði fyrsta mark Honefoss í 4-3 tapi liðsins gegn Forde í norsku D-deildinni í dag.
Hönefoss er í 7. sæti deildarinnar þegar ein umferð er eftir og getur í besta falli endað í 6. sæti.
Í næst efstu deild í Noregi komu Valdimar Þór Ingimundarson og Jónatan Ingi Jónsson við sögu hjá Sogndal í 2-0 tapi liðsins gegn Grorud.
Bjarni Mark Antonsson kom inn á sem varamaður í uppbótartíma í 4-1 sigri Start gegn Asane.
Sogndal er í 7. sæti með 40 stig eftir 28 leiki en Start er í 3. sæti með 48 stig.