David De Gea spilar sinn 500. leik fyrir Manchester United í dag en hann er í byrjunarliðinu sem mætir Newcastle.
Þessi 31 árs gamli markvörður gekk til liðs við félagið frá Atletico Madrid árið 2011 en hann hefur verið mjög umdeildur undanfarin ár og margir kallað eftir því að liðið fái sér nýjan markvörð.
Erik ten Hag stjóri liðsins er hins vegar stoltur af sínum manni.
„Þetta er frábært, það segir margt um þig ef þú spilar 500 leiki fyrir félag eins og Manchester United. Þetta er svakalegt afrek og ég met þess mikils, ég vil óska honum til hamingju með þetta," sagði Ten Hag.
„Hann er reynslumikill og einn af leiðtogum liðsins."
Hann hefur einu sinni orðið enskur meistari og unnið báðar bikarkeppnirnar einu sinni. Hann á 45 landsleiki fyrir hönd Spánar.