Liverpool 1 - 0 Manchester City
1-0 Mohamed Salah ('76 )
1-0 Mohamed Salah ('76 )
Liverpool lagði Englandsmeistara Manchester City, 1-0, á Anfield í dag. Mohamed Salah skoraði sigurmarkið þegar stundarfjórðungur var eftir en síðari hálfleikurinn var hin mesta skemmtun fyrir áhorfendur.
Fyrri hálfleikurinn bauð ekki upp á mikið. Bæði lið að þreifa fyrir sér á meðan Manchester City sýndi þolinmæði og reyndi að finna einhverjar glufur á varnarleik Liverpool.
Diogo Jota átti fyrsta hættulega færi leiksins. Harvey Elliott fann hann í teignum en tilraun hans beint á Ederson. Erling Braut Haaland átti skalla sem fór beint á Alisson undir lok fyrri hálfleiks.
Það fór allt í gang í síðari hálfleiknum sem var svo sannarlega töluvert skemmtilegri en fyrri.
Mohamed Salah kom sér í dauðafæri strax í byrjun síðar eftir að Roberto Firmino sendi hann í gegn en Ederson sá við honum með glæsilegri vörslu. Man City hélt boltanum þrátt fyirr það og upp úr því skoraði Phil Foden.
Haaland virtist sparka boltanum úr höndum Alisson og skoraði Foden upp úr því. Anthony Taylor, dómari leiksins, skoðaði atvikið betur, en dæmdi markið af þar sem Erling Braut Haaland var brotlegur í aðdragandanum fyrir að brjóta á Fabinho.
Jota kom sér í dauðafæri stuttu síðar eftir fyrirgjöf Salah en skalli hans fór yfir markið. Þarna átti hann að skora og ótrúlegt að hann gerði það ekki.
Nokkrum mínútum síðar átti Alisson laglega vörslu gegn Haaland, sá brasilíski að eiga góðan leik í marki heimamanna.
Það var Liverpool sem skoraði svo sigurmarkið. Alisson hirti aukaspyrnu Kevin de Bruyne, sparkaði boltanum langt fram völlinn og var það Salah sem tókst að snúa Joao Cancelo af sér, keyra einn á móti Ederson og svo lagði hann boltann framhjá markverðinum og í netið.
Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, var rekinn upp í stúku á 85. mínútu eftir mótmæli. Hann vildi aukaspyrnu eftir að Salah og Bernardo Silva voru að kljást á vellinum og Taylor var ekki sáttur við mótmælin og sendi Klopp af hliðarlínunni.
Darwin Nunez, sem kom inná sem varamaður, var að skapa mikla hættu, en ákvörðunartökur hans voru ekki alveg upp á tíu. Liverpool komst í þrír gegn einum, þar sem Salah var með mikið pláss en í stað þess reyndi hann skot og það rann í sandinn. Þarna gat Liverpool gert út um leikinn.
Diogo Jota fór meiddur af velli undir lok leiksins. Slæmar fréttir fyrir Liverpool en liðið náði að halda út og fagnar 1-0 sigri á Englandsmeisturunum.
Liverpool er í 8. sæti með 13 stig en Man City er nú fjórum stigum á eftir toppliði Arsenal, með 23 stig. Gæti þetta hafa verið vendipunkturinn á annars slæmri byrjun LIverpool í deildinni? Það verður að koma í ljós, en engu að síður frábær skemmtun á Anfield í dag.
Athugasemdir