Jürgen Klopp. stjóri Liverpool, var hæstánægður með frammistöðu liðsins í 1-0 sigrinum á Manchester City á Anfield í dag.
Mohamed Salah skoraði eina mark leiksins um stundarfjórðungi fyrir lokin eftir langt útspark frá Alisson. Salah snéri af sér Joao Cancelo og lagði boltann framhjá Ederson í markinu.
„Úrslitin eru fullkomin. Frammistaðan var rosalega góð og það var mikil ákefð í þessum leik."
„Við vörðumst á rosalega háu stigi í 99 mínútur næstum því. Þeir fengu sín augnalbik en við gerðum sérstaklega vel í teignum."
„Augljóslega var þetta stórt fyrir okkur í dag. Við mættum til leiks og það er það eina sem við vildum gera."
„City fékk ekki þessar stöður í skyndisóknunum og við fengum það þrisvar sinnum. Þessi atburðarrás í kringum markið er bara ekkert annað en stórkostlegt. Yfirsýnin hjá Alisson og svo frábærlega vel gert hjá Mo. Hann gæti klúðrað einu en hann klúðrar ekki tveimur svona færum."
„Mörk ákveða úrslit leikja en það voru svo mörg góð augnablik í þessum leik gegn liði sem ég tel besta fótboltalið í heiminum," sagði Klopp.
Hann fékk rauða spjaldið á 85. mínútu fyrir hörð mótmæli eftir að Bernardo Silva fór í Mohamed Salah á vængnum. Línuvörðinn sá ekkert athugavert við það og brjálaðist Klopp sem varð til þess að hann var rekinn inn í klefa.
„Þetta var líklega verðskuldað, en þú getur ekki boðið upp á þessa stöðu. Þetta var eitt augljósasta brot sem ég hef séð og það beint fyrir framan línuvörðinn og honum var alveg sama. Þetta er augljóst. Þeir horfa bara á leikinn en við erum hluti af honum."
Þetta gæti hafa verið vendipunktur á tímabilinu hjá Liverpool en næst mætir Liverpool liði West Ham á miðvikudag.
„Þetta eru þrjú sig. Við verðum að ná okkur núna fyrir miðvikudag þar sem West Ham kemur í heimsókn og það verður annar erfiður leikur. Þetta var gott í dag og í raun það besta sem gat gerst," sagði Klopp í lokin.
Athugasemdir