Marcelo Bielsa var rekinn úr starfi sínu hjá Leeds United á síðustu leiktíð og hefur ekki tekið nýtt starf að sér síðan.
Bielsa er gríðarlega eftirsóttur þjálfari og hafa mörg félög boðið honum starf undanfarna mánuði.
Bielsa hefur hafnað öllum þeim atvinnutækifærum sem honum hafa boðist í fótboltaheiminum en á dögunum hafnaði hann tilboði frá argentínska stórveldinu River Plate.
„Ég gæti ekki verið þjálfari hjá liði sem spilar í deild þar sem annað lið er með leikvang skírðan í höfuðið á mér," á Bielsa að hafa sagt þegar hann var beðinn um að taka við River Plate. Þar átti hann við Estadio Marcelo A. Bielsa sem er heimavöllur Newell's Old Boys í Argentínu.
Bielsa þjálfaði Newell's Old Boys frá 1990 til 1992 og var einnig leikmaður félagsins um tíma.
Brasilíska félagið Santos reyndi einnig að krækja í Bielsa í haust en argentínski þjálfarinn svaraði ekki símanum fyrstu dagana og hafnaði svo starfsboðinu.
Bielsa þjálfaði Lazio, Lille, Marseille og Athletic Bilbao áður en hann tók við Leeds sumarið 2018.