Spænski miðjumaðurinn Gavi var valinn sem besti ungi leikmaður heims í kjörinu um Gullknöttinn. Hlaut hann því Kopa bikarinn svokallaða.
Úrslitin voru kynnt í kvöld og hlaut Gavi flest atkvæði í U21 flokki með Eduardo Camavinga og Jamal Musiala á hælunum.
Jude Bellingham er í fjórða sæti listans og Bukayo Saka í áttunda en á listanum má einnig finna Nuno Mendes, Josko Gvardiol, Ryan Gravenberch, Karim Adeyemi og Florian Wirtz.
Gavi er mikilvægur hlekkur í sterku liði Barcelona þrátt fyrir að vera aðeins 18 ára gamall. Hann á 12 A-landsleiki að baki fyrir Spán og allt sem bendir til þess að hér sé einn af bestu miðjumönnum sögunnar að koma upp.
Sadio Mane hlaut þá Socrates verðlaunin sem eru ný af nálinni. Socrates verðlaunin verða veitt þeim leikmanni sem hefur gert hvað mest til að glíma við félagsleg vandamál utan vallar. Verðlaunin eru nefnd í höfuðið á Socrates, fyrrum landsliðsmanni Brasilíu, sem var menntaður læknir og skírður í höfuðið á frægum grískum heimsspekingi.