Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 17. október 2022 23:33
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Helgi Sig: Ég er lítið fyrir einhverja meðalmennsku
Lengjudeildin
Grindavík á sér góða sögu og hefur náð góðum árangri í gegnum tíðina. Þetta er lið sem á að vera í efstu deild og þangað reynum við að stefna
Grindavík á sér góða sögu og hefur náð góðum árangri í gegnum tíðina. Þetta er lið sem á að vera í efstu deild og þangað reynum við að stefna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er ekkert hókus pókus í því
Það er ekkert hókus pókus í því
Mynd: Raggi Óla
Á þeim fundum sem ég fór á með þeim þá skynjaði ég að það er mikill kraftur og ætlunin er að gera betur en á síðustu árum
Á þeim fundum sem ég fór á með þeim þá skynjaði ég að það er mikill kraftur og ætlunin er að gera betur en á síðustu árum
Mynd: UMFG
Frábær leikmaður og fyrir utan það er hann mikill leiðtogi
Frábær leikmaður og fyrir utan það er hann mikill leiðtogi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er búið að vera frábært í sumar að vinna með mönnum eins og Heimi Guðjóns og Óla Jó
Það er búið að vera frábært í sumar að vinna með mönnum eins og Heimi Guðjóns og Óla Jó
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Helgi fór upp með Fylki sumarið 2017.
Helgi fór upp með Fylki sumarið 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Valur er frábært félag og búin að vera mikil reynsla að koma aftur til félagsins
Valur er frábært félag og búin að vera mikil reynsla að koma aftur til félagsins
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Helgi Sigurðsson var í lok síðasta mánuðar ráðinn þjálfari Grindavíkur og tekur hann við starfinu þann 1. nóvember þegar tímabilinu í Bestu deildinni er lokið. Helgi er í dag aðstoðarþjálfari Vals og klárar tímabilið þar.

Helgi tekur við af Alfreð Elíasi Jóhannssyni sem látinn var fara í síðasta mánuði. Grindavík endaði í 6. sæti Lengjudeildarinnar í sumar, sextán stigum frá HK í 2. sætinu og tólf stigum frá KV sem endaði í næstneðsta sæti.

„Það kom þannig til að Grindavík hafði samband fljótlega eftir að það kom í ljós að ég yrði ekki áfram í Val. Þá fóru í gang samningsviðræður sem gengu bara nokkuð vel, tóku náttúrulega smá tíma þar sem þeir voru að tala við einhverja fleiri aðila. Að lokum gekk þetta og það er bara mjög ánægjulegt," sagði Helgi.

„Það sem heillaði mig við Grindavík er krafturinn í stjórnarmönnum sem núna eru teknir við. Á þeim fundum sem ég fór á með þeim þá skynjaði ég að það er mikill kraftur og ætlunin er að gera betur en á síðustu árum. Það á að koma liðinu í baráttuna um að komast upp og það er það sem verður vegferð okkar á næsta ári - að komast í þá stöðu að berjast um að komast upp. Grindavík á sér góða sögu og hefur náð góðum árangri í gegnum tíðina. Þetta er lið sem á að vera í efstu deild og þangað reynum við að stefna."

„Gengið vel hingað til og ég sé ekki að það muni breytast"
Er möguleiki á því að fara upp með liðið strax á þínu fyrsta tímabili?

„Ég er nú þannig gerður - bjartsýnn að eðlisfari - að ég tel það vera möguleika, annars hefði ég ekki tekið þetta verkefni að mér. Ég er lítið fyrir einhverja meðalmennsku. Þau verkefni sem maður tekur að sér reynir maður að skila vel frá sér. Það hefur gengið vel hingað til og ég sé ekki að það muni breytast. Auðvitað verður það ekkert létt verk, það eru mörg góð lið í þessari deild, en ég tel mig vera taka við þokkalegasta búi og með því að fá rétta menn inn í þetta lið þá eigum við að geta gert tilkall á að fara upp. Stefnan verður sett á það að koma liðinu í hóp þeirra bestu."

Líst ekkert rosalega vel á fyrirkomulagið
Á næsta tímabili er stefnt að því að spilað verði um seinna sætið sem gefur þátttökurétt í efstu deild 2024. Efsta sætið færi beint upp en liðin í 2. - 5. sæti mætist í umspili. Hvernig líst Helga á það?

„Fyrir fram líst mér ekkert rosalega vel á það. Ég hef verið oft í þessari deild, það hefur gengið vel og farið upp úr henni nánast alltaf. Ég þekki það vel að tvö efstu sætin gefa sjálfkrafa sæti í deildinni fyrir ofan. Það sem maður sér við þetta, er ef það er stór munur á milli 2. sætis og 5. sætis sem oft er, þá á samt liðið í 5. sæti möguleika á að fara upp. Þetta er skrítið, fyrir fram finnst manni þetta frekar ósanngjarnt, en er auðvitað sagt með fyrirvara. Maður veit ekki hvað maður er að fara út í. Þetta ætti að gefa aukna spennu í lokin í baráttunni um möguleikann á að komast upp. Maður verður að leyfa þessu að fara af stað áður en maður fer að dæma þetta of hart."

Heldur því fyrir sig
Helgi hefur fjórum sinnum farið upp úr næst efstu deild, tvisvar sinnum sem leikmaður og tvisvar sinnum sem þjálfari. Hjá Fylki fór hann upp á fyrsta ári og á ÍBV fór hann upp með liðið á öðru ári sínu með liðið. Hver er lykilinn á því að fara upp úr deildinni?

„Ég ætla bara að halda því fyrir mig, ekki vera að gefa öðrum eitthvað," sagði Helgi og hló. „Ég tel mig nokkurn veginn vita hvað það er, ætla ekki að opinbera það neitt sérstaklega. Það er ekkert hókus pókus í því, snýst allt um að vera með góðan hóp leikmanna sem eru tilbúnir í að fara í þá vinnu sem til þarf til að ná settu markmiði. Þetta er erfið deild til að ná árangri í, liðin eru vel þjálfuð, menn eru 'fit' og þú þarft að hafa þig allan við til að komast upp úr þessari deild. Það eru alltaf að lágmarki 4-5 lið sem gera tilkall til þess að fara upp, þú verður að halda einbeitingu yfir allt sumarið svo það megi ganga upp. Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta, reyni að halda því svolítið fyrir mig og vonandi gengur þetta áfram."

Lykilatriði að fá fleiri leikmenn eins og Guðjón Pétur
Guðjón Pétur Lýðsson er leikmaður Grindavíkur, hann og Helgi unnu saman hjá ÍBV. Er mikill kostur að hafa hann í hópnum?

„Já. Guðjón Pétur kom sterkur inn þegar hann kom inn í hlutina hjá okkur í Eyjum, bæði innan sem utan vallar. Hann er frábær leikmaður og fyrir utan það er hann mikill leiðtogi, gefur mikið af sér og það er alltaf gott að hafa svoleiðis menn í hóp - einhverja karaktera sem rífa menn á vellinum áfram. Auk þess er hann góður að leiðbeina yngri leikmönnum. Hann er leikmaður sem gott er að hafa með sér í hóp. Hann veit sjálfur veit hvað það er sem þarf til að ná árangri, er reyndur í þessu og mér líst bara mjög vel á að hafa hann með mér."

„En eins og ég segi þá þurfum við að bæta liðið allhressilega, við þurfum að gera það til að ná þessum markmiðum sem við ætlum að setja okkur. Það er enginn hókus pókus í þessu og það er lykilatriði að fá fleiri leikmenn eins og Guðjón Pétur til liðs við okkur, karaktera sem geta hjálpað okkur að ná þessum markmiðum."


Öðruvísi verkefni
Átti Guðjón Pétur þátt í því að sannfæra þig um að taka við Grindavík?

„Hann var búinn að hafa samband og hvetja mig til að koma til Grindavík. En þegar botninn á hvolft var aðalatriðið að ég sá fyrir mér verkefnið þarna. Ég átta mig á því að þetta er aðeins öðruvísi verkefni en maður hefur verið áður í. Maður hefur verið að taka við liðum sem hafa fallið úr efstu deild og kannski með fullmótaðari hóp en akkúrat núna."

„Með réttum styrkingum þá tel ég að Grindavík eigi að geta gert sterkt tilkall til að fara upp úr þessari deild - annars hefði ég aldrei tekið við þessu. Ég er sjálfur með mikinn metnað og fann að klúbburinn er líka með mikinn metnað. Það eru mjög spennandi tímar framundan í Grindavík og ég hlakka til að byrja í því umhverfi."


Frábært að vinna með mönnum eins og Heimi og Óla
Var farið að kitla að taka aftur við aðalþjálfarastarfi eftir ár í burtu frá slíku?

„Ég væri að ljúga ef það væri ekki. Það er búið að vera frábært í sumar að vinna með mönnum eins og Heimi Guðjóns og Óla Jó. Það eru þeir þjálfarar sem hafa unnið flesta titla í sögunni. Það er mikill lærdómur fyrir mig, eftir að hafa verið í fimm ár sem aðalþjálfari þá var ágætt að taka eitt ár með svona snillingum og soga að sér það sem þeir hafa fram að færa. Ég tel mig ennþá betur undirbúinn til að takast á við næsta verkefni."

Félag sem þróast hefur í rétta átt
Helgi er fyrrum leikmaður Vals, lék með liðinu fyrir rúmum áratug síðan.

„Valur er frábært félag og búin að vera mikil reynsla að koma aftur til félagsins. Það er rúmur áratugur frá því ég var sjálfur að spila fótbolta með liðinu. Þetta félag hefur verið að þróast í rétta átt og hefur verið að vinna mikið af titlum síðustu ár. Það er vel haldið utan um allt hjá Val og frábært tækifæri að fá að koma þarna inn."

„Valur samrýmist minni stefnu, maður vill gera vel og maður vill ná árangri. Þó svo að maður hafi verið aðstoðarþjálfari þá gaf það manni mikið að vera með einum besta leikmannahópi Íslands og bestu þjálfurunum. Það hlýtur að gefa manni eitthvað í reynslubankann og getur hjálpað mér til framtíðar í þjálfun."

„Það er frábært að vera kominn aftur í starf aðalþjálfara og vonandi næ ég fínum árangri með Grindavík á næsta ári,"
sagði Helgi.
Athugasemdir
banner
banner
banner