Búist var við að Jürgen Klopp yrði í hliðarlínubanni fyrir viðureign Liverpool gegn West Ham United sem fer fram miðvikudagskvöldið.
Klopp var rekinn útaf í 1-0 sigri Liverpool gegn Englandsmeisturum Manchester City en James Robson, fréttamaður hjá AP fréttaveitunni, staðfestir að hann fari ekki sjálfkrafa í bann.
Enska knattspyrnusambandið þarf að skoða atvikið og taka svo ákvörðun í kjölfarið en óljóst er hvort það muni nást fyrir miðvikudagskvöldið.
Verði atvikið ekki skoðað fyrir miðvikudagskvöldið þá er ljóst að Klopp fær að vera á hliðarlínunni gegn Hömrunum. Hann gæti þó misst af næsta eða þarnæsta deildarleik verði hann dæmdur í leikbann.
Liverpool heimsækir Nottingham Forest um helgina og tekur svo á móti Leeds United um næstu helgi þar á eftir.