David Moyes var ósáttur með dómgæsluna eftir 1-1 jafntefli West Ham gegn Southampton í gær. Í viðtalinu að leikslokum sagði hann að VAR dómarinn ætti að fá sér ný gleraugu.
Franski bakvörðurinn Romain Perraud kom Southampton yfir í fyrri hálfleik en Moyes telur dómarann hafa átt þátt í markinu með að standa í vegi fyrir Jarrod Bowen og skilur ekki hvers vegna leikurinn var ekki stöðvaður.
„Hvernig fengum við ekki þrjú stig úr þessum leik? Svarið er dómarinn. Dómarinn kom bókstaflega í veg fyrir að við gætum varist markinu. Boltinn barst út og Jarrod Bowen spretti í átt að honum en hann komst ekki þangað á undan andstæðingi sínum. Hvers vegna? Vegna þess að dómarinn stóð í vegi fyrir honum!" sagði Moyes æfur.
„Þetta er hlægilegt, virkilega hlægilegt. Dómarinn kom í veg fyrir að Bowen næði til boltans og þá skoraði andstæðingurinn úr færinu. Bíðið bara eftir að sjá endursýningar af þessu frá öllum sjónarhornum, þá munuð þið sjá hversu hrikalega slæm ákvörðun þetta er. Sem dómari þá getur þú ekki staðið í vegi fyrir leikmanni og dæmt svo mark eftir að hann tapar kapphlaupinu um boltann."
Moyes ræddi svo um annað atvik þegar honum fannst eins og Tomas Soucek hafi átt að fá dæmda vítaspyrnu. Aftur átti Perraud í hlut en í þetta skiptið datt Soucek í jörðina eftir samskipti sín við Frakkann.
„Það hljóta að vera nýjar reglur í fótboltanum, ég þarf að skoða þær. Maður má greinilega grípa um mitti andstæðinga til að halda þeim kyrrum og svo má kasta þeim í jörðina með júdó-hreyfingu.
„Þetta er nákvæmlega það sem gerðist. Hann tók utan um Tomas og kastaði honum í jörðina. Þetta er ekki dómaranum að kenna, þetta skrifast á VAR. Hver sem var í VAR herberginu í dag þarf að kaupa sér ný gleraugu."