Maurizio Sarri er vel þekktur þjálfari í fótboltaheiminum. Hann er við stjórnvölinn hjá Lazio eins og er en hefur einnig stýrt félögum á borð við Napoli, Juventus og Chelsea á ferlinum.
Hann gaf viðtal við Gianluca Di Marzio á dögunum og talaði um að það þyrfti að bjarga fótboltaheiminum frá sjálfum sér.
„Ef við höldum svona áfram verður ekkert fallegt við fótbolta. Það þarf að bjarga fótboltanum frá sjálfum sér. Þegar leikmenn eru neyddir til að spila 60 til 70 leiki á tímabili verða gæðin að sjálfsögðu verri," sagði Sarri eftir að stjörnuleikmaður Lazio, Ciro Immobile, þurfti að fara meiddur af velli um helgina.
„Leikmenn æfa minna til að forðast meiðsli. Þeir leggja ekki jafn hart að sér á æfingum og halda aftur af sér í ákveðnum aðstæðum í leikjum. Þetta leikjaálag eyðileggur fótboltann, leikmenn geta ekki sýnt sitt besta andlit vegna ofþreytu.
„Því miður er ekki hægt að breyta þessu útaf peningunum. Fótbolti er ekki lengur íþrótt, fótbolti er 'business'. Þetta er fáránlegt. Peningaupphæðirnar í fótboltaheiminum eru ógeðslegar og ósanngjarnar."
Sarri telur hjólreiðar vera betri íþrótt heldur en fótbolta í dag.
„Hvort myndi ég frekar horfa á Meistaradeildina eða Tour de France? Allan daginn hjólreiðar. Hjólreiðar eru alvöru íþrótt, fótbolti er meiri sýndarmennska."