Mainoo fær nýjan samning - Goretzka og Gomes orðaðir við Man Utd - Bremer og Kerkez við Liverpool
banner
   þri 17. nóvember 2015 16:55
Magnús Már Einarsson
Lögfræðideild Swansea skoðar ummæli Gylfa á Fótbolta.net
Gylfi í viðtalinu í gær.
Gylfi í viðtalinu í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Talsmaður Swansea segir að félagið hafi beðið lögfræðideild sína að skoða hvernig ummæli Gylfa Þórs Sigurðssonar í viðtali við Fótbolta.net í gær voru túlkuð í erlendum fjölmiðlum.

Í viðtali við Fótbolta.net í gær var Gylfi spurður að því hvort að hann hefði rætt við Garry Monk, stjóra Swansea, hversu mikið hann myndi spila með íslenska landsliðinu í vináttuleikjunum gegn Póllandi og Slóvakíu.

„Hann (Monk) er lítið að tala við leikmenn. Þegar við fórum áfram sendi hann ekki einu sinni leikmönnum frá Wales og Íslandi sms til að segja til hamingju. Ég hef ekkert heyrt í honum," sagði Gylfi við Fótbolta.net í viðtalinu í gær.

Breskir fjölmiðlar hafa tekið ummæli úr viðtalinu og birt í fréttum í dag. Swansea segir að þar hafi ummælin verið tekin úr samhengi.

„"Við vitum af þeim ummælum sem tengd hafa verið Gylfa Sigurðssyni og við höfum sent málið til lögfræðideildar okkar," sagði talsmaður Swansea við WalesOnline í dag

„Við höfum rætt við Gylfa og hann segir að ummælin hafi verið tekin úr samhengi. Hann var einungis að segja að þegar leikmenn fara í landsleiki þá eru þeir undir stjórn knattspyrnusambanda og landsliðsþjálfara og þau hafa auðvitað lokavald yfir því hversu mikið leikmaður spilar með þjóð sinn í landsleikjahléi."

„Gylfi er skýr á því að hann hafi meint að sambandið við stjóra hjá félagsliði sé í lágmarki þegar hann er í landsliðsverkefni."

„Við viljum að það sé á hreinu að Garry Monk óskar öllum leikmönnum sem komast áfram á lokamót til hamingju og þá skiptir ekki máli hvaða mót er um að ræða eða hvaða þjóð leikmaðurinn spilar fyrir. Að halda öðru fram er rangt."


Smelltu hér til að horfa á viðtalið í heild sinni
Athugasemdir
banner