
Þorlákur Árnason þjálfari Þórs var ánægður með sigur liðsins á Kára í Mjólkurbikarnum í dag.
Lestu um leikinn: Kári 3 - 5 Þór
„Þetta var geggjað, maður vissi ekki alveg hverju maður átti von á, Káramenn eru eiturseigir og hafa náð góðum úrslitum hér á heimavelli í gegnum tíðina, gáfu KR og Víking hérna hörku leik síðastliðin ár," sagði Þorlákur.
„Alexander (Már Þorláksson) sonur minn var að spila með Kára á sínum tíma þannig maður þekkir aðeins meira til, þeir stóðu sig gríðarlega vel í þessum leik."
Þorlákur var svekktur með að Þórsararnir hafi skorað tvö mörk í framlengingunni sem voru dæmd af vegna rangstöðu.
„Við brennum af svakalega mikið af færum í þessum leik, skorum tvö lögleg mörk sem er áfall. Það lúkkaði þannig þegar maður sá þetta inn á vellinum eins og þetta væru mjög furðulegir dómar. Svo sá maður í sjónvarpinu og fékk staðfestingu á því að þetta væru kolrangir dómar," sagði Þorlákur.