Real Madrid vill Enzo og Huijsen - Liverpool, Arsenal og Man Utd hafa áhuga á Gibbs-White - Sane orðaður við Liverpool
banner
   lau 22. október 2022 21:43
Ívan Guðjón Baldursson
Calvert-Lewin dreymir um HM
Mynd: EPA

Dominic Calvert-Lewin var besti maður vallarins í 3-0 sigri Everton gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í dag.


Calvert-Lewin hefur verið fjarverandi vegna meiðsla á upphafi tímabils en virðist vera mættur aftur af fullum krafti miðað við frammistöðuna í dag. Calvert-Lewin skoraði í sigrinum og var Gareth Southgate landsliðsþjálfari meðal áhorfenda.

„Ég er ánægður fyrir hönd Dominic því ég veit hversu mikið hann þráir að gera vel fyrir enska landsliðið. Hann er búinn að sigrast á erfiðum meiðslum og er með reynslu úr landsliðinu. Það kæmi mér ekki á óvart ef hann yrði valinn í hópinn sem fer til Katar," sagði Frank Lampard, þjálfari Calvert-Lewin hjá Everton, eftir sigurinn og var svo spurður hvort varnarmennirnir James Tarkowski og Conor Coady ættu skilið kall í landsliðshópinn.

„Ég get bara dæmt útfrá því sem ég hef séð frá þeim hérna og ég get sagt að þeir hafa gjörbreytt andrúmsloftinu í búningsklefanum frá komu sinni. Þetta snýst aðallega um metnaðinn og vinnuframlagið sem þeir sýna á æfingum á hverjum einasta degi, þeir gefa liðsfélögunum frábært fordæmi. Fyrir utan það hafa þeir verið óaðfinnanlegir á vellinum og hjálpað okkur að ná í frábær úrslit að undanförnu. Gareth veit að þetta eru frábærir fagmenn sem búa yfir miklum gæðum og eru afar metnaðarfullir keppnismenn. Þeir sýndu hvers þeir eru megnugir í dag."

Calvert-Lewin svaraði sjálfur spurningum að leikslokum og segir það vera draum sinn úr barnæsku að fara með enska landsliðinu á HM.

„Það hefur verið mjög erfitt að fylgjast með frá hliðarlínunni en ég sýndi mikla þolinmæði og er kominn aftur. Ég hef aldrei verið þolinmóð manneskja og lærði mikið af þessari lífsreynslu," sagði Calvert-Lewin.

„Það hefur verið draumurinn minn síðan ég var barn að fara á HM og núna þarf ég að leggja allt í sölurnar og vonast til að það sé pláss fyrir mig í hópnum. Starfslýsingin mín er að skora mörk þannig núna þarf ég að vera duglegur við að skora og sjá hvert það leiðir mig.

„Þetta mark gefur mér sjálfstraust og trú um að ég muni skora fleiri mörk í næstu leikjum."


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner