Það voru þónokkrir Íslendingar sem komu við sögu í leikjum dagsins víðs vegar um Evrópu. Viðar Ari Jónsson var í sigurliði Honved sem er komið með 13 stig úr 12 umferðum í ungversku deildinni á meðan Kolbeinn Birgir Finnsson spilaði síðasta hálftímann fyrir varalið Borussia Dortmund.
Varalið Dortmund vann flottan sigur til að fjarlægjast fallsvæðið og er með 15 stig eftir 13 umferðir. Ellefu af þessum stigum hafa komið í fimm síðustu deildarleikjunum.
Í ensku C-deildinni var Jón Daði Böðvarsson í byrjunarliði Bolton og var tekinn af velli á 53. mínútu leiksins í stöðunni 2-0. Bolton sneri leiknum við eftir skiptingarnar og stóð uppi sem sigurvegari, 2-3, og er komið með 24 stig eftir 14 umferðir.
Accrington Stanley 2 - 3 Bolton
Zalaegerszegi 0 - 2 Honved
Meppen 0 - 2 Dortmund II
Viðar Örn Kjartansson og Samúel Kári Friðjónsson voru þá báðir í liði Atromitos sem tapaði heimaleik gegn Volos í grísku deildinni í dag.
Atromitos var betra liðið í leiknum og fékk fleiri færi en ekki tókst heimamönnum að skora og urðu lokatölurnar 0-2.
Atromitos er með 11 stig eftir 9 umferðir á meðan Volos er að reynast spútnik lið tímabilsins og situr í öðru sæti með 20 stig.
Ögmundur Kristinsson var þá ónotaður varamaður í 0-2 sigri Olympiakos á útivelli gegn Panetolikos. Olympiakos fór illa af stað en er komið með 17 stig eftir 9 umferðir og stefnir á toppinn.
Atromitos 0 - 2 Volos
Panetolikos 0 - 2 Olympiakos
Að lokum var Jón Dagur Þorsteinsson ónotaður varamaður í markalausu jafntefli OH Leuven á útivelli gegn St. Truiden í belgíska boltanum á meðan Elías Már Ómarsson spilaði síðustu 10 mínúturnar í 1-0 tapi Nimes gegn Pau FC í B-deild franska boltans.
Jón Dagur er búinn að missa sætið sitt í byrjunarliðinu og er Leuven í sjöunda sæti, með 21 stig eftir 14 umferðir.
Elías Már er að sama skapi búinn að missa byrjunarliðssæti sitt hjá Nimes sem er í fallsæti með 11 stig eftir 13 umferðir.
Nökkvi Þeyr Þórisson lék þá allan leikinn í fremstu víglínu hjá Beerschot VA sem lagði varalið Genk að velli í B-deild belgíska boltans.
Beerschot er þar í öðru sæti með 17 stig eftir 10 umferðir og stefnir upp í efstu deild.
St. Truiden 0 - 0 OH Leuven
Pau FC 1 - 0 Nimes
Genk II 1 - 2 Beerschot VA