Gomes efstur á óskalista Newcastle - Liverpool hefur einnig áhuga - Rætt um að stækka HM kvenna
   fös 23. ágúst 2024 13:53
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Reynslubolti úr efstu deild kominn á fullt í dómgæslu - „Örugglega skemmtilegra en að vera leikmaður"
Stefán Ragnar er fæddur árið 1991 og lék á sínum tíma 78 leiki í efstu deild.
Stefán Ragnar er fæddur árið 1991 og lék á sínum tíma 78 leiki í efstu deild.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Með fyrirliðabandið hjá Berserkjum.
Með fyrirliðabandið hjá Berserkjum.
Mynd: Magnús Valur Böðvarsson
Að störfum á þriðjudagskvöldið.
Að störfum á þriðjudagskvöldið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lék með Selfossi, Fylki, Val, ÍBV, Fram, Berserkjum og KÁ á sínum ferli.
Lék með Selfossi, Fylki, Val, ÍBV, Fram, Berserkjum og KÁ á sínum ferli.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
ÞÞÞ.
ÞÞÞ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stefán Ragnar Guðlaugsson lék á sínum tíma með unglingalandsliðunum og á að baki 78 leiki í efstu deild. Hann er hins vegar kominn í nýtt hlutverk í fótboltanum því hann er farinn að dæma.

Hann var fjórði dómarinn þegar Þróttur mætti Breiðabliki í Bestu deild kvenna í vikunni. Fótbolti.net ræddi við dómarann.

Ákvað að loksins að kýla á þetta
„Það eru einhver fimm ár síðan ég hætti að spila, ég meiddist illa á sínum tíma en þegar ég var að koma til baka kom þessi fluga fyrsta upp ef ég gæti ekki spilað aftur. Ég spilaði einhverja leiki, hætti í fótbolta og var búinn að ganga með þetta í maganum í svona tvö ár áður en ég ákvað að loksins kýla á að fara dæma," segir Stefán.

„Ég sá að ÞÞÞ (Þórður Þorsteinn Þórðarson) fór að dæma og hugsaði að þetta væri alveg séns. Ég ákvað að kýla á þetta, prófa þetta og finnst þetta alveg hrikalega gaman."

„Það var enginn sem reyndi að ýta mér þessa leið, það var frekar reynt að toga í mig í þjálfun. Þetta var algjörlega mitt frumkvæði."


Kom annað í ljós þegar hann prófaði að dæma
Stefán segist á sínum leikmannaferli aldrei hafa íhugað að prófa að dæma. „Mér datt það ekki í hug. Ég skildi ekki hvernig menn nenntu þessu, gat ekki ímyndað mér að þetta væri skemmtilegt."

„En svo kom annað í ljós þegar maður prófaði þetta. Þetta er eiginlega jafn gaman og að vera leikmaður, einhvern veginn sama stemning. Þú ert hluti af leiknum og ert að pæla í honum í aðdragandanum. Mér finnst þetta mjög svipað."


Setti fjölskylduna í fyrsta sætið
Stefán er fæddur árið 1991. Var hann nálægt því eftir meiðslin að halda áfram að spila fótbolta?

„Ég spilaði einhverja leiki eftir meiðslin, kom alveg þokkalegur til baka. En svo eignaðist ég tvíbura, átti eitt barn fyrir, og þá var svolítið erfitt að fara út klukkan 17 alla daga og segja bless við konuna - hún með þrjá drengi heima. Það fannst mér ekki alveg sanngjarnt. Það tekur svo mikinn tíma að vera leikmaður, þú ert öll kvöld og allar helgar í þessu og getur ekki farið neitt eða gert neitt. Ég setti fjölskylduna í fyrsta sætið. Hún var alltaf búin að lúffa á meðan ég var leikmaður."

Hann er uppalinn á Slefossi og lék einnig með Val, Fylki, ÍBV og Fram. Undir lok ferilsins lék hann svo með Berskerjum og KÁ.

Það er minni viðvera í kringum dómarastarfið heldur þegar menn eru á fullu á leikmannaferli sínum. „Maður æfir, heldur sér í standi og svo eru það leikdagarnir, kannski tveir í viku, en það eru þá bara þeir sem fara í þetta, ekki líka allir hinir dagar vikunnar. Núna get ég stjórnað þeim dögum eins og ég vil."

Langar að dæma á hæsta getustigi á Íslandi
Stefán setur stefnuna á að dæma í Bestu deild karla.

„Ég er með mín markmið. Ég er það klikkaður, með þetta íþróttahugarfar, mig langar bara alla leið í þessu, eins langt og ég kemst. Ég vil koma mér í efstu deild hér heima og svo þekki ég bara ekki nógu vel hvernig aldurstakmörkin eru (með möguleikann á að dæma í Evrópuleikjum). Mig langar allavega að komast á hæsta getustig hér sem fyrst og sjá svo hvað er í boði og hvernig þetta virkar."

Var „snarvitlaus" við dómarana
Tröppugangurinn hefur verið nokkuð hraður hjá Stefáni.

„Ég fór í febrúar og tók unglingadómaraprófið aftur, fór svo á héraðsdómaranámskeið og svo hef ég samband við KSÍ og bið um að taka þrekprófið. Þegar ég er búinn að dæma u.þ.b. tíu leiki þá fæ ég póst og er þá uppfærður upp í landsdómara; það eru þeir dómarar sem mega dæma í öllum deildum. Þetta gerðist allt frekar hratt."

„Í sumar hef ég verið að vinna í ákveðnum hlutum. Þetta er öðruvísi en að vera leikmaður, allt aðrir hlutir sem maður þarf að pæla í og alls konar. Það er ekki bara spurning hvort eitthvað sé brot eða ekki brot. Það eru alls konar aðrir hlutir."


Hvernig varst þú sem leikmaður gagnvart dómurunum? Varstu einn af þeim sem var óþolandi?

„Í kringum tvítugt þá er ég náttúrulega alveg bilaður. En ég myndi segja að eftir 21 árs aldurinn hafi ég nú verið nokkuð þægilegur, var bara í spjallinu og ekki að láta menn heyra það. Ég var alveg tilbúinn að hlusta á hvernig dómararnir sæju hlutina, vildi frekar fá þau svör heldur en að þurfa segja hvað mér fannst. Framan af var ég snarvitlaus, en eftir tvítugt þá þroskaðist ég aðeins og fór frekar út í samtölin."

Fáránlega skemmtilegt
Hefur eitthvað í dómarahlutverkinu komið meira á óvart en annað?

„Það sem hefur komið mest á óvart er hversu fáránlega skemmtilegt þetta er. Ég er með kannski annan bakgrunn en aðrir dómarar. Þegar maður er vanur að spila í efstu deild þá eru kannski þúsund manns á leiknum og það eru allir óánægðir með þig inn á vellinum. Ég hef því ekki þurft að búa mér til þennan hjúp sem dómarar þurfa að hafa; vera ónæmir fyrir köllum og svoleiðis. Ég er með þann bakgrunn og búinn að búa mér til þann hjúp og ég held að það hjálpi mér rosalega mikið. Ég held að þolinmæði mín fyrir einhverjum sem er ósáttur sé kannski hærri en hjá mörgum."

Hvenær vonast Stefán til þess að fá tækifæri til að dæma í efstu deild karla á Íslandi?

„Mig langar að spreyta mig á hæsta getustigi hérna heima og er tilbúinn þegar kallið kemur. Ég hef aldrei verið stressaður fyrir neinu í fótboltanum, markmiðið er bara að dæma í Bestu sem fyrst. Það heldur vonandi áfram að ganga vel og þá kannski kemur tækifærið. Það er ekki bara ég sem er að vonast eftir tækifærinu þar, ég held það séu mjög margir, margir góðir dómarar sem eru ekki komnir svo langt."

Stefán hefur fengið rosalega jákvæð viðbrögð frá fyrrum liðsfélögum og þjálfurum sem hann hefur dæmt hjá.

„Það hefur oft verið umræða að það vanti einhverja fótboltaþekkingu í dómara, að þeir hafi ekki spilað leikinn. Ég hef ekki fengið neitt annað en jákvæð viðbrögð og ánægja með að ég hafi tekið þetta skref."

Ef það kæmi einhver einstaklingur og spyrði þig hvort hann ætti að fara út í dómgæslu, hvernig myndir þú svara því?

„Ég myndi alltaf segja já. Þetta er alveg fáránlega skemmtilegt. Fyrir mér er þetta jafn skemmtilegt, og örugglega bara skemmtilegra heldur en að vera leikmaður. Ég er í þessu af allt öðrum forsendum en ég var sem leikmaður. Nú er ég að þessu af mínum forsendum. Þetta er allavega á pari við það að vera leikmaður, geggjað að geta verið hluti af leiknum. Það er það sem snertir hvað hæst í þessu. Ég myndi alltaf mæla með því að fara út í dómgæslu," segir Stefán.
Athugasemdir
banner
banner