Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool, er mjög ósáttur að Mohamed Salah hafi tjáð sig um samningamálin sín hjá Liverpool.
Viðtal við Salah birtist í dag þar sem hann sagði að Liverpool hafi ekki enn boðið honum samning en samningur hans við félagið rennur út í sumar.
„Ég er vonsvikinn með Mo Salah. Þetta viðtal sem hann fór í eftir leikinn í gær kom út í dag, Liverpool spilar gegn Reeal Madrid í vikunni og Man City um helgina, það er aðalatriðið fyrir Liverpool núna," sagði Carragher.
„Við vitum að hann stoppar tvisvar og spjallar við fjölmiðla eftir leiki sem er í lagi en hann ákvað að stoppa í þriðja sinn í Southampton eftir sigur Liverpool og hendir þessu út."
Mikið hefur verið rætt og ritað um samningamálin hjá Liverpool en leikmenn á borð við Salah, Virgil van Dijk og Trent Alexander-Arnold renna út á samningi í sumar.
„Aðalatriðið fyrir Liverpool núna er ekki framtíð Salah, Virgil van Dijk eða Trent Alexander-Arnold. Aðalatrliðið er að vinna úrvalsdeildina, það er aðalatriðið fyrir alla leikmennina," sagði Carragher að lokum.