Franski sóknarmaðurinn Kylian Mbappe segir það hafa komið sér á óvart hvað leikmenn varaliðs Real Madrid væru góðir en þetta sagði hann í viðtali eftir 3-0 sigurinn á Leganes í gær.
Mbappe skoraði sjöunda deildarmark sitt á tímabilinu í leiknum og er nú fimmti markahæsti leikmaður deildarinnar.
Fjölmiðlar hafa mikið talað um samband Mbappe og Vinicius Junior, en sá brasilíski hefur verið að spila á vængnum, sem er uppáhalds staða Mbappe.
Frakkinn hefur þurft að spila sem fremsti maður og hefur verið gagnrýndur fyrir frammistöðuna til þessa, þó hann sé að skora reglulega með liðinu.
„Samband mitt og Vini er mjög gott. Bestu leikmennirnir eru hjá Real Madrid og við erum klárir í að vinna leiki. Þetta umtal um vinstri vænginn er saga lífs míns. Ég get spilað á vinstri, hægri og sem fremsti maður. Mér er alveg sama hvar ég spila, því ég vil bara hjálpa liðinu og skora mörk“ sagði Mbappe.
Þá talaði Mbappe einnig um gæðin hjá félaginu en hann hrósaði leikmönnum varaliðsins í viðtalinu. Mbappe æfði með þeim í landsleikjahléinu og var mjög hrifinn.
„Þetta kom mér á óvart og ég hafði enga hugmynd um gæðin hjá leikmönnum varaliðsins. Það gerði mér gott að æfa með þeim, því þeir eru líkamlega sterkir og geta hjálpað liðinu“ sagði hann enn fremur.
Athugasemdir