mán 25. nóvember 2024 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Van Nistelrooy að taka við liði í þýsku B-deildinni?
Ruud van Nistelrooy
Ruud van Nistelrooy
Mynd: Getty Images
Þýska B-deildarfélagið Hamburger SV er alvarlega að íhuga að ráða hollenska þjálfarann Ruud van Nistelrooy en þetta segir þýski blaðamaðurinn Florian Plettenberg.

Van Nistelrooy kvaddi Manchester United á dögunum eftir að hafa stýrt liðinu í fjórum leikjum.

Hann var fenginn til United í sumar til að aðstoða Erik ten Hag en eftir að sá síðarnefndi var látinn fara fékk Van Nistelrooy það hlutverk að stýra liðinu á meðan United leitaði að nýjum stjóra.

Hann vann þrjá leiki og gerði eitt jafntefli í fjórum leikjum sínum sem bráðabirgðastjóri en hætti þegar Ruben Amorim tók við störfum.

Plettenberg, sem starfar hjá Sky í Þýskalandi, segir að þýska félagið Hamburger SV sé að skoða það að ráða Van Nistelrooy.

Steffen Baumgart var látinn taka poka sinn í gær eftir að hafa gert 2-2 jafntefli við Schalke en liðið situr í 8. sæti þýsku B-deildarinnar með 20 stig eftir þrettán leiki.

Van Nistelrooy er vel kunnugur Hamburger eftir að hafa spilað með liðinu tímabilið 2010-2011 þar sem hann gerði 12 deildarmörk í 36 leikjum.
Athugasemdir
banner
banner