Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   sun 24. nóvember 2024 07:00
Brynjar Ingi Erluson
Ánægður með afmælisdaginn - „Talað meira um það í fjölmiðlum en á milli leikmanna“
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Afmælisbarn gærdagsins, James Maddison, gat ekki hugsað sér betri frammistöðu og úrslit en þar átti hann við 4-0 stórsigur Tottenham á Englandsmeisturum Manchester City á Etihad-leikvanginum í gær.

Maddison var að halda upp á 28 ára afmæli sitt en hann kom aftur inn í byrjunarliðið eftir að hafa byrjað á bekknum í tveimur leikjum á undan.

Sá greip tækifærið en hann skoraði tvö mörk á sjö mínútum og kom Tottenham í afar þægilega stöðu gegn besta liði Englands.

„Með aldrinum vill maður aldrei vera minntur á afmælisdaginn því það er bara áminning um að maður sé að eldast, en ég mun klárlega muna eftir þessum degi. Það er mjög sjaldgæft að upplifa svona daga og ná í þessi úrslit, sérstaklega gegn meisturunum og á heimavelli City, gegn Guardiola-liði, þannig maður verður að njóta,“ sagði Maddison.

Maddison var spurður út í það hvort hann hafi farið á völlinn eins og hann hefði eitthvað að sanna en þá benti hann á að umræðan í fjölmiðlum væri meiri en í klefanum.

„Sanna mig fyrir hverjum? Ég myndi ekki orða það þannig. Maður verður að sanna sig í hverjum einasta leik sem maður spilar, það er hugarfarið sem þú verður að hafa. Ég datt út úr liðinu í nokkrum leikjum, en það er talað meira um það í fjölmiðlum en á milli leikmanna.“

„Ef stjórinn vill taka mig út og spila Sarr og Kulusevski í nokkrum leikjum þá er það í góðu lagi mín vegna. Ég þarf hins vegar að sjá til þess að þegar ég fæ tækifærið þá geti hann ekki tekið mig út úr liðinu eftir það. Enginn leikmaður er sáttur við að fá ekki að spila.“


Maddison var ánægður með endurkomu sína í byrjunarliðið og hrósaði þá liðsfélögum sínum fyrir frábæra frammistöðu í gær.

„Mér leið vel á vellinum og það hefur verið þannig stærstan hluta tímabilsins, fyrir utan kannski nokkra slæma leiki upp á síðkastið, en það getur gerst. Ég er ótrúlega ánægður með bæði eigin frammistöðu og liðsins. Við þurftum að verjast og treysta á Vicario í leiðinni. Þegar maður kemur hingað þá er maður svolítið undir pressu útaf gæðunum sem þeir eru með, en mér fannst við mæta þeim og Vicario átti nokkrar stórar vörslur. Allt í allt var þetta góður dagur,“ sagði Maddison.
Athugasemdir
banner
banner