Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   sun 24. nóvember 2024 20:37
Brynjar Ingi Erluson
Adam Ingi og félagar í Östersund áfram í B-deildinni - Cole Campbell skoraði fyrir varalið Dortmund
Adam Ingi spilar áfram í sænsku B-deildinni
Adam Ingi spilar áfram í sænsku B-deildinni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Cole Campbell skoraði fyrir varalið Dortmund
Cole Campbell skoraði fyrir varalið Dortmund
Mynd: Getty Images
Adam Ingi Benediktsson og hans menn í Östersund spila áfram í sænsku B-deildinni á næsta tímabili eftir að hafa unnið Lunds samanlagt, 5-2, í umspili um sæti í deildinni.

Markvörðurinn kom til Östersund frá Gautaborg í sumar og verið aðalamarkvörður liðsins á tímabilinu.

Östersund hafnaði í 14. sæti í B-deildinni og þurfti því að fara í tveggja leikja umspil til að halda sæti sínu.

Liðið vann fyrri leikinn 2-0 á útivelli og kláraði síðan dæmið með 3-2 sigri á heimavelli í dag.

Keflvíkingarnir Elías Már Ómarsson og Rúnar Þór Sigurgeirsson mættust í hollensku úrvalsdeildinni í dag er Willem II og NAC Breda gerðu 2-2 jafntefli.

Elías byrjaði hjá Breda á meðan Rúnar var í byrjunarliði Willem, en báðir fóru af velli í síðari hálfleik. Liðin eru hlið við hlið á töflunni í 10. og 11. sæti með 16 stig.

Kolbeinn Birgir Finnsson var á bekknum hjá Utrecht sem vann NEC Nijmegen, 2-1, en kom ekki við sögu. Utrecht er í öðru sæti deildarinnar með 31 stig, fimm stigum frá toppnum.

Rúnar Alex orðinn þriðji markvörður hjá FCK?

Sævar Atli Magnússon byrjaði hjá Lyngby sem tapaði fyrir FCK, 2-1, í dönsku úrvalsdeildinni.

Markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson var ekki í hópnum hjá FCK annan leikinn í röð. Nathan Trott, sem hefur verið aðalmarkvörður fyrri hluta tímabilsins er kominn á bekkinn og hefur FCK gefið danska unglingalandsliðsmanninum Theo Sander tækifærið.

Rúnar kom til FCK í febrúar og hefur aðeins spilað einn leik fyrir félagið.

Daníel Freyr Kristjánsson spilaði allan leikinn í bakverðinum hjá Fredericia sem vann Ara Leifsson og félaga í Kolding, 1-0, í dönsku B-deildinni.

Ari var ekki í hópnum hjá Kolding. Fredericia er í öðru sæti með 34 stig en Kolding í 6. sæti með 24 stig.

Sverrir Ingi Ingason var í vörn Panathinaikos sem vann Panetolikos, 2-1, í grísku úrvalsdeildinni. Panathinaikos er komið upp í 3. sæti deildarinnar með 22 stig.

Hörður Björgvin Magnússon var fjarri góðu gamni en hann fór í aðgerð á dögunum og snýr ekki aftur fyrr en í apríl.

Lærisveinar Freys Alexanderssonar í Kortrijk fengu þungan skell gegn Westerlo í belgísku úrvalsdeildinni. Westerlo vann leikinn 4-0 en Patrik Sigurður Gunnarsson var ekki með Kortrijk. Íslendingaliðið er í næst neðsta sæti með 14 stig.

Andri Lucas Guðjohnson kom þá inn af bekknum í 6-0 stórtapi Gent gegn Anderlecht. Tveir leikmenn Gent fengu rautt spjald í leiknum en liðið er í 6. sæti með 22 stig.

Atli Barkarson spilaði allan leikinn í vörninni hjá Waregem sem vann 5-1 stórsigur á Seraing í belgísku B-deildinni. Waregem er á toppnum með 26 stig eftir tólf umferðir.

Bandaríski-íslenski leikmaðurinn Cole Campbell skoraði þá fyrsta mark varaliðs Borussia Dortmund sem lagði Aue að velli, 3-1, í þýsku C-deildinni.

Cole hefur verið að fá tækifæri inn af bekknum hjá aðalliðinu en þess á milli spilar hann með varaliðinu. Liðið situr í 9. sæti deildarinnar með 21 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner