Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   lau 23. nóvember 2024 09:00
Brynjar Ingi Erluson
Valdi Hlín sóknarmann ársins - Óvíst hvort hún verði áfram
Hlín Eiríksdóttir var ein af bestu leikmönnum tímabilsins
Hlín Eiríksdóttir var ein af bestu leikmönnum tímabilsins
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hlín í leik með Kristianstad
Hlín í leik með Kristianstad
Mynd: Kristianstad
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðskonan Hlín Eiríksdóttir er sóknarmaður ársins í Svíþjóð eða að minnsta kosti að mati Lovinu Stafhammar hjá Fotboll Direkt.

Hlín átti ótrúlegt tímabil með Kristianstad. Hún skoraði 15 mörk í sænsku úrvalsdeildinni og varð önnur markahæst í deildinni á eftir Momoko Tanikawa, leikmanni Rosengård.

Tímabilið hjá Rosengård var magnað. Liðið tapaði aðeins einum leik í deildinni og vann hana nokkuð sannfærandi, en það var Hlín sem vakti athygli Stafhammar.

„Mitt á milli allra leikmanna Rosengård fundum við leikmann sem stóð upp úr í vali á sóknarmanni ársins: Hlín Eiríksdóttir. Þessi 24 ára Íslendingur hafnaði í öðru sæti yfir markahæstu leikmenn með sín 15 mörk. Leikmaður sem hefur tekið miklum framförum og tók á sig nýtt og stærra hlutverk eftir að Tabby Tindell yfirgaf Kristianstad,“ skrifaði Stafhammar á Fotboll Direkt.

Gæti farið frá Kristianstad

Hlín talaði við Fotbollskanalen um tímabilið og framtíðina, en það er algerlega óvíst hvort hún verði áfram hjá félaginu á komandi tímabili.

„Ég er mjög sátt með frammistöðu mína á tímabilinu. Þetta er það besta sem ég hef gert síðan ég kom til Svíþjóðar, þannig ég er nokkuð sátt með það. Frammistaða liðsins var góð, en því miður kom dýfa undir lok tímabilsins sem varð til þess að við höfnuðum í fjórða sæti,“ sagði Hlín.

„Ég fékk auðvitað stórt hlutverk í sóknarleik okkar og þá sérstaklega og þá sérstaklega í lokin. Auðvitað fékk ég líka frábæra þjónustu frá liðsfélögum mínum og í lok tímabils færði ég mig aðeins meira út á vinstri kantinn þar sem ég gat komið meira inn á völlinn og skotið með hægri. Þannig ég fékk að skora nokkur mörk með þeim hætti.“

Tvö af fimmtán mörkum Hlínar voru tilnefnd sem mark ársins í sænsku deildinni, eitt gegn Hammarby og annað gegn Djurgården, en hún taldi markið gegn Hammarby þýðingarmeira.

„Markið gegn Hammarby hafði ótrúlega mikla þýðingu því á þeim tímapunkti vorum við aðeins með í baráttunni um Meistaradeildarsæti og þetta var sigurmarkið, þannig kannski var það uppáhalds markið mitt. Ég veit samt ekki hvort það hafi verið fallegt og kannski var markið gegn Djurgården flottara. Ég er ekki viss.“

Samningur hennar rennur út í lok árs en hún hefur ekki enn tekið ákvörðun varðandi framtíðina. Það gæti farið svo að hún reyni fyrir sér í öðru landi.

„Mér líður vel hér og það er gott að vera hér. Þetta er þægindarammi og ég hef mikla trú á þjálfurunum og utan vallar er lífið gott. Það er fullt af Íslendingum sem búa hér og mér líður bara eins og heima.“

„Mig langar svolítið að prufa að spila erlendis og það er ástæðan fyrir því að ég hef ekki framlengt samning minn. Ég er að skoða hvað ég vil gera en ég verð bráðlega að taka ákvörðun.“

„Ég og Kristianstad erum í sambandi. Eins og ég sagði þá líður mér ótrúlega vel hér og ég held að það sjáist alveg inn á velli. Þannig þetta er óráðið en það er alveg klárt að ég vil á einhverjum tímapunkti taka næsta skref ferilsins. Maður verður að gera það á réttum tímapunkti. Ég er alls ekki að flýta mér að yfirgefa Kristianstad því mér líður vel og er að þróa leik minn með hverjum deginum sem líður.“

„Þjálfararnir hjálpa mér ótrúlega mikið og það er alls ekki auðvelt að taka ákvörðun um mögulega fara héðan. Ég veit að ég hef það ótrúlega gott hér og verð betri og betri, eins og allt liðið,“
sagði Hlín í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner