Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   sun 24. nóvember 2024 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Walker um Liverpool-leikinn: Munu labba yfir okkur ef við spilum svona
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Kyle Walker, fyrirliði Manchester City, segir að ef liðið muni spila gegn Liverpool eins og það gerði gegn Tottenham þá muni það fá útreið á Anfield.

Varnarleikur Man City hrundi gegn Tottenham og varð niðurstaðan 4-0 tap.

Þetta var fimmta tap Man City í röð í öllum keppnum, sem er í fyrsta sinn sem það hefur gerst síðan Pep Guardiola tók við.

Næsti deildarleikur Man City er gegn erkifjendunum í Liverpool, en tap þar gæti reynst dýrkeypt fyrir City þegar talið verður upp úr pokanum fræga í lok tímabils.

„Það er frábær leikur til að snúa við blaðinu og taka stigin þrjú gegn liði sem er fyrir ofan þig, en þeir munu labba yfir okkur ef við spilum eins og við gerðum í dag (gær). Við þurfum að undirbúa okkur fyrir leik í Meistaradeildinni áður en við spilum þennan svakalega leik á sunnudag, þar sem við reynum að halda okkur í nálægð við Liverpool,“ sagði Walker.

Walker var einn af slökustu mönnum Man City í leiknum og gerðist sekur um skelfilegan varnarleik í fjórða marki Tottenham er Timo Werner hafði hann nokkuð auðveldlega í spretthlaupi.

Englendingurinn kallar hins vegar eftir því að allir leikmenn hjálpist að í varnarleiknum.

„Þetta er það sem mest pirrandi við það að vera varnarmaður. Mér er sama um að skora mörk, en það er mér mikilvægt að halda hreinu og það er eitthvað sem við erum ekki að gera þessa stundina. Maður verður að fara aftur í grunnatriðin og halda hreinu. Ef við fáum á okkur fjögur mörk á heimavelli þá þurfum við að skora fimm. Þetta snýst ekki bara um öftustu fjórum, fimm eða sex, heldur um alla ellefu sem eru inn á vellinum,“ sagði Walker.
Athugasemdir
banner
banner
banner