Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   lau 23. nóvember 2024 19:29
Brynjar Ingi Erluson
England: Tottenham fór illa með Englandsmeistarana - Fimmta tapið í röð
Tottenham keyrði yfir Man City á Etihad
Tottenham keyrði yfir Man City á Etihad
Mynd: Getty Images
Man City tapaði fimmta leiknum í röð
Man City tapaði fimmta leiknum í röð
Mynd: Getty Images
Erling Braut Haaland átti vondan dag
Erling Braut Haaland átti vondan dag
Mynd: Getty Images
Manchester City 0 - 4 Tottenham
0-1 James Maddison ('13 )
0-2 James Maddison ('20 )
0-3 Pedro Porro ('53 )
0-4 Brennan Johnson ('90 )

Tottenham vann frækinn 4-0 sigur á Englandsmeisturum Manchester City í 13. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Etihad í dag. Þetta var fimmta tap Man City í röð.

Það hefur allt gengið á afturfótunum hjá Man City síðustu vikur. Liðið hafði tapað fjórum leikjum í röð í öllum keppnum áður en landsleikjatörnin tók við.

Pep Guardiola framlengdi á dögunum og sagði þessi fjögur töp mögulega ástæðu þess að hann hafi gert nýjan samning og vonaðist til þess að koma liðinu aftur á rétta braut í dag.

Það byrjaði ágætlega. Man City var betri aðilinn fyrstu mínúturnar og gat Erling Braut Haaland skorað tvö mörk en var ekki alveg að finna sig á meðan Guglielmo Vicario var vel á verði.

Tottenham svaraði heimamönnum með tveimur mörkum á sjö mínútum.

Dejan Kulusevski teiknaði frábæra fyrirgjöf á James Maddison sem kom með enn betra hlaup á fjær og skilaði boltanum í netið og á 20. mínútu gerði hann annað mark sitt eftir mistök í vörn Man City.

Josko Gvardiol gaf boltann frá sér á Maddison sem sendi hann á Heung-Min Son. Hann fann Maddison aftur í þröngu færi, en hann gerði vel með því að vippa yfir Ederson í markinu og í netið.

Tottenham byrjaði síðari hálfleikinn vel. Kulusevski klobbaði tvo áður en hann tók þrihyrningsspil með Son. Svíinn átti síðan fyrirgjöf sem var heldur löng fyrir Dominic Solanke, en hann náði til boltans, fann Pedro Porro út í teignum sem skoraði með föstu skoti í vinstra hornið.

Haaland fékk aragrúa af færum til þess að skora. Hann átti skot í þverslá og komst þá einn á móti Vicario en Ítalinn sá við honum.

Brennan Johnson komst nálægt því að skora fjórða markið undir lokin. Hann komst framhjá Ederson en setti boltann í stöng úr þröngu færi.

Hann bætti upp fyrir það í uppbótartíma. Timo Werner stakk Kyle Walker af á sprettinum, kom honum á fjær á Johnson sem skoraði í autt markið. Undarlegur varnarleikur hjá Walker.

Man City fékk færin í leiknum en fór illa með þau. Tottenham skoraði fjögur og hefði hæglega getað skorað fleiri en 4-0 sigur staðreynd og Ange Postecoglou, stjóri liðsins, fer sáttur frá Manchester.

Englandsmeistaranir eru áfram í öðru sæti, fimm stigum á eftir Liverpool sem á leik til góða. Man City heimsækir Liverpool á Anfield næstu helgi.

Tottenham fer upp í 6. sæti með 19 stig.
Athugasemdir
banner
banner