Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   lau 23. nóvember 2024 23:44
Brynjar Ingi Erluson
Neville talar um hnignun hjá Man City - „Fjarvera Rodri ekki eina vandamálið“
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Gary Neville, sparkspekingur Sky Sports, segir það augljóst að það sé hnignun að eiga sér stað í liði Manchester City og að allir séu meðvitaðir um það.

Man City tapaði fimmta leik sínum í röð í dag er Tottenham rúllaði yfir Englandsmeistarana á Etihad.

Eins og staðan er núna er liðið fimm stigum frá toppnum og eru ágætis líkur á því að það verði enn lengra í toppinn eftir umferðina.

Neville var á leik Man City og Tottenham en hann segist aldrei hafa séð liðið eins slakt og það var í dag.

„Við höfum séð Man City tapa einum og einum leik hér, en það er sjaldan þar sem við höfum séð þá yfirspilaða á öllum sviðum. Það er nákvæmlega það sem við erum að sjá.“

„Þeir virðast litlir og aldrei verið svona litlir síðan á fyrsta tímabili Pep. Ég hef aldrei séð þá svona slaka og bara hvernig þeir hafa verið að spila síðustu vikur.“

„Pep beið eftir landsleikjatörninni, haldandi það að liðið gæti endurstillt sig, en frammistaðan í dag ýtir enn frekar undir þá skoðun að það er hnignun hjá þessu Man City-liði,“
sagði Neville.

Meiðsli hafa sett strik í reikninginn hjá Man City. Rodri sleit krossband, sem hefur verið einn besti maður liðsins síðustu ár og þá hafa aðrir mikilvægir leikmenn misst af leikjum, en Neville segir vandamál Man City töluvert stærra en Rodri.

„Þetta virðist alger brjálun, svona ef þú hugsar um allt sem liðið hefur afrekað. Það er auðvelt að spila gegn þeim og það er hvatning fyrir liðin sem mæta þeim. Það sjá allir veikleika þeirra og þetta er er miklu stærra en Rodri.“

Neville benti á frammistöðu Kyle Walker í leiknum. Hann hefur verið að spila illa og var það bara síðast í dag sem Timo Werner fékk hlaupabraut upp vinstri vænginn áður en hann kom boltanum á Brennan Johnson sem skoraði.

„Guð minn almáttugur. Þú sérð þetta ekki oft, en við höfum séð þetta nokkrum sinnum á síðustu vikum. Hann hélt Vinicius Junior og Mbappe í skefjum, en í dag er hann í algeru basli,“ sagði Neville.

Man City á næsta deildarleik gegn erkifjendunum í Liverpool. Það gæti verið risaleikur fyrir bæði lið. Á morgun mætir Liverpool nýliðum Southampton og með sigri geta lærisveinar Arne Slot náð átta stiga forystu á toppnum.
Athugasemdir
banner
banner